Fara ekki fram á miklar launahækkanir

Skurðlæknar að störfum.
Skurðlæknar að störfum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fyrsti fundur samninganefndar Skurðlæknafélags Íslands og samninganefndar ríkisins var haldinn í morgun. Kjarasamningur félagsins rennur út 31. ágúst.

Síðasti kjarasamningur skurðlækna var undirritaður í janúar árið 2015 eftir verkfall sem hafði mikil áhrif á starfsemi Landspítalans.

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Ómar

Launin viðhaldi verðgildi sínu

„Við viljum aðallega sjá til þess að okkar laun viðhaldi sínu verðgildi á samningstímanum. Við erum ekkert að fara fram á miklar launahækkanir. Þetta verður ekkert eins og síðustu viðræður sem snerust um leiðréttingu sem við töldum okkur hafa fengið fram,“ segir Eiríkur Orri Guðmundsson, formaður samninganefndar Skurðlæknafélags Íslands, spurður út i kröfur félagsins. 

Hann telur að kröfurnar séu í takt við gang mála á vinnumarkaðnum. Það sem helst snýr að störfum skurðlækna í viðræðunum tengist meira öryggis- og tryggingamálum.

Eiríkur Orri kveðst vongóður um að samningaviðræðurnar muni ganga vel fyrir sig en næsti fundur er fyrirhugaður á föstudaginn.

mbl.is/ÞÖK

Vantar skurðlækna á landsbyggðinni

Liðlega eitt hundrað skurðlæknar þiggja laun samkvæmt kjarasamningi Skurðlæknafélags Íslands en skurðlæknar eru einnig í Læknafélagi Íslands, sem samþykkti nýjan kjarasamning fyrr í sumar. 

Spurður hvort skortur sé á skurðlæknum á landinu segir Eiríkur Orri það misjafnt eftir sérgreinum og sjúkrahúsum. Sums staðar segir hann vel mannað en annars staðar er þörf á fleirum.

„Það er aðallega landsbyggðin sem þyrfti liðsauka. Það er erfitt að vera eini skurðlæknirinn eða annar af tveimur hvar sem maður er. Það er mikil vaktabyrði og álag sem fylgir því,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert