Kennsla felld niður vegna magakveisu

24 starfsmenn Hörðuvallaskóla eru skráðir veikir í dag.
24 starfsmenn Hörðuvallaskóla eru skráðir veikir í dag. Ljósmynd/Kópavogsbær

Fella þurfti niður kennslu í sex bekkjum á miðstigi í Hörðuvallaskóla í Kópavogi í morgun vegna magakveisu sem geisar á meðal starfsfólks skólans.

Að sögn Ágústs Jakobssonar, skólastjóra Hörðuvallaskóla, eru 24 starfsmenn af þeim 120 sem starfa í skólanum veikindaskráðir í dag. Forföllin eru því um 20%.

„Það geta komið flensutoppar þannig að það verði mjög mikil forföll en þetta er óvenjulegt á þessum tíma,“ segir Ágúst.

„Við erum að gera það sem við getum upp á almennt hreinlæti og erum að sótthreinsa snertifleti. Þetta virðist vera frekar skæð umgangspest, það er ekkert sem bendir til annars.“

Magakveisa hefur einnig geisað í Hvassaleiti, annarri af tveimur starfsstöðvum Háaleitisskóla. Þar hefur verið útilokað að nóró-veirunni sé um að kenna.

Ágúst á von á einhverjum niðurstöðum úr rannsóknum í dag en segir magakveisuna ekki lýsa sér eins og nóró-veiru. Einnig er búið að útiloka að veikindin tengist mötuneyti skólans.

Nemendur mættu engu að síður allir með nesti á sínum fyrsta skóladegi í morgun, enda hefur mötuneytinu verið lokað fyrst um sinn til að draga úr smithættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert