Stjórnmálaflokkurinn Björt framtíð heldur ársfund sinn 2. september næstkomandi á Icelandair Hotel Natura í Reykjavík. Þar verður meðal annars kosið um formann og stjórnarformann flokksins.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra er formaður flokksins og hann mun bjóða sig fram til þess embættis á ný, að sögn Unnsteins Jóhannssonar, aðstoðarmanns Óttars.
Að sögn Valgerðar Bjarkar Pálsdóttur, framkvæmdastjóra flokksins, hafa ekki komið fram önnur framboð í formannsstólinn.
Einn frambjóðandi hefur gefið kost á sér í embætti stjórnarformanns, en nánari upplýsingar um frambjóðendur verða kynntar þegar nær dregur og fleiri framboð komin fram.
Undirbúningur fyrir sveitarstjórnarkosningar verður til umræðu á þinginu. Valgerður segir ekki liggja endanlega fyrir í hversu mörgum sveitarfélögum flokkurinn muni bjóða fram lista.
„Það er mislangt sem sveitarstjórnarhóparnir eru komnir í sinni skipulagningu, en við hyggjumst allavega bjóða fram í þeim sveitarfélögum þar sem við erum nú þegar,“ segir Valgerður.
„Hugmyndin er að á þessum fundi muni sveitarstjórnarfólkið okkar setjast niður og ræða sameiginleg málefni og annað slíkt.“