Óttarr sækist eftir endurkjöri

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar.
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar. Styrmir Kári

Stjórnmálaflokkurinn Björt framtíð heldur ársfund sinn 2. september næstkomandi á Icelandair Hotel Natura í Reykjavík. Þar verður meðal annars kosið um formann og stjórnarformann flokksins.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra er formaður flokksins og hann mun bjóða sig fram til þess embættis á ný, að sögn Unnsteins Jóhannssonar, aðstoðarmanns Óttars.

Að sögn Valgerðar Bjarkar Pálsdóttur, framkvæmdastjóra flokksins, hafa ekki komið fram önnur framboð í formannsstólinn.

Einn frambjóðandi hefur gefið kost á sér í embætti stjórnarformanns, en nánari upplýsingar um frambjóðendur verða kynntar þegar nær dregur og fleiri framboð komin fram.

Ekki endanlega ákveðið hvar Björt Framtíð býður fram

Undirbúningur fyrir sveitarstjórnarkosningar verður til umræðu á þinginu. Valgerður segir ekki liggja endanlega fyrir í hversu mörgum sveitarfélögum flokkurinn muni bjóða fram lista. 

„Það er mislangt sem sveitarstjórnarhóparnir eru komnir í sinni skipulagningu, en við hyggjumst allavega bjóða fram í þeim sveitarfélögum þar sem við erum nú þegar,“ segir Valgerður.

„Hugmyndin er að á þessum fundi muni sveitarstjórnarfólkið okkar setjast niður og ræða sameiginleg málefni og annað slíkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert