„Við getum ekki borgað okkur laun“

Meðal hugmynda er að kaupa upp ærgildi til að fækka …
Meðal hugmynda er að kaupa upp ærgildi til að fækka sauðfé. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Við eldhúsborðið á Hallgilsstöðum á Langanesi situr sauðfjárbóndinn Maríus Halldórsson með reiknivél í hendi. Hann rýnir í nýútgefna verðskrá KS og reiknast til að fyrir lamb sem vegur 15 kíló fái hann greiddar 5.600 krónur. Eiginkonan, Lára Björk Sigurðardóttir, er kennari í fullu starfi í Grunnskólanum á Þórshöfn. Þau eru bæði rúmlega þrítug og eiga saman þrjú börn, auk þess að halda um 470 kindur.

Maríus annast búið en horfir fram á að þurfa líka að vera útivinnandi í vetur. „Þetta verður rekið með hreinu tapi, þessi fjárbú, ef fer sem horfir. Það er skrýtið að hugsa til þess að þurfa að finna sér aukavinnu,“ segir Maríus, þegar hann horfir inn í veturinn. Þau hjónin eru svo lánsöm að skulda ekki mikið.

50% launalækkun

Nýlega hófu afurðastöðvarnar að birta verðskrár fyrir haustslátrun 2017. Greiðslur til bænda lækka um 35% á milli ára en í fyrra nam lækkunin 10%. Lækkunin í ár jafngildir því að laun sauðfjárbænda lækki um meira en 50%, samkvæmt útreikningum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, sem unnir voru fyrir Landssamtök sauðfjárbænda.

Á sama tíma og laun hækka almennt í samfélaginu er veruleiki sauðfjárbænda sá að launin snarlækka, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra hefur sagt að fækka þurfi fé um 20% í landinu. Ástandið bitnar harðast á ungum bændum en fjórir þeirra eru viðmælendur mbl.is.

„Ég vil ekkert hætta“

„Maður er bara alveg launalaus,“ segir Rúnar Björn Guðmundsson, bóndi á Vatnsleysu í Biskupstungum. Hann er 29 ára og lærður smiður. Það bjargar honum. „Þaðan koma mínar tekjur eingöngu.“ Hann segir að búið hafi til þessa staðið undir sér sjálft, en þá greiðir hann sér engin laun. „Þetta er bara verulega glatað,“ segir hann og bætir við: „Ég var síðast í gær að lesa um að meðallaun hefðu hækkað um 30 og eitthvað prósent í landinu.“

Hann segir að auðvitað geti hann reiknað sér laun en þá yrði búið rekið með tapi. Rúnar Björn tók ný fjárhús í notkun í fyrra en hann hefur verið með kindur síðan 2009. Hann hefur á sínum herðum lán sem þarf að borga af. Undir þeim afborgunum stendur búið ekki svo hann smíðar í hjáverkum. „Ég vil ekkert hætta í þessu, en það er ekki gott í mönnum hljóðið.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra vinnur að úrlausn mála.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra vinnur að úrlausn mála. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allir í aukavinnu

Staða Maríusar og Rúnars Björns er dæmigerð fyrir stöðu ungra bænda, og jafnvel sauðfjárbænda almennt, á Íslandi í dag. Allir þeir sem mbl.is hefur rætt við í morgun treysta á önnur störf til að láta enda ná saman. Svo virðist sem ungir bændur stundi sauðfjárrækt af ástríðu en ræktunin skilar þeim, að sögn, litlum sem engum launum.

Ferðaþjónustan aðal

Einar Freyr Elínarson er formaður stjórnar samtaka ungra bænda og rekur sauðfjárbú á Loðmundarstöðum undir Sólheimajökli. Hann segist vera í betri stöðu en margir aðrir. „Ég er heppinn að reka ferðaþjónustu, sem hefur gengið afskaplega vel,“ segir hann og heldur áfram. „Ég kvíði þessu því ekki eins mikið og aðrir, sem hafa lagst í meiri fjárfestingar.“

Einar Freyr finnur til með ungu fólki sem byggt hefur ný fjárhús og ráðist í aðrar kostnaðarsamar framkvæmdir. Hann segir að brottfallið úr greininni sé mest hjá ungum bændum, sem hafi þyngri skuldabyrði. „Þeir sem helst þrauka eru þeir gömlu sem reka skuldlaus bú. Þeir sem komið hafa nýir inn í greinina eru þeir sem líklegastir eru til að detta út.“ Einar vill að horft verði til þessa hóps þegar stjórnvöld ákveða mótvægisaðgerðir vegna fækkunar sauðfjár sem þarf að eiga sér stað.

Einar, sem er með 330 ær, segir að ferðaþjónustan sé í dag hans aðalbúgrein. Hann rekur, ásamt móður sinni, 20 herbergja gistiheimili á Sólheimahjáleigu og segir að ferðaþjónustan, sérstaklega á þessu svæði, hafi bjargað mörgum. Hann prísar sig sælan að engin lán hvíli á fjárhúsinu. „Ég er heppinn, vegna þess hvar ég er staddur, að geta haft þessa vinnu samhliða ferðaþjónustunni.“

„Ekki okkur að kenna“

Sæunn Káradóttir, sauðfjárbóndi í Norðurhjáleigu í Álftaveri í Skaftárhreppi, hefur svipaða sögu að segja og þau Einar, Maríus og Rúnar. Þegar mbl.is hafði samband var hún upptekin við önnur störf. Hún kennir skorti á markaðssetningu um ófarirnar sem stéttin er í. Menn séu að klína klúðri í sölumálum yfir á bændur. „Við líðum fyrir eitthvað sem er ekki okkur að kenna.“ Hún vill betri merkingar á lambakjöt, enska þýðingu og betri framsetningu. Selja þurfi kjötið í neytendavænni pakkningum. „Það þýðir ekki bara að hafa þetta frosið í stórum pokum ofan í frystikistum.“

Einar Freyr Elínarson er formaður stjórnar Samtaka ungra bænda.
Einar Freyr Elínarson er formaður stjórnar Samtaka ungra bænda. Úr einkasafni

Sæunn, sem rekur búið með manni sínum, Þormari Ellert Jóhannssyni, hefur 220 ær á fóðrum. „Maðurinn minn vinnur utan bús og ég er heima í tímabundnu starfi. Við getum ekki borgað okkur laun út úr búinu. Þetta rekur sig bara sjálft,“ segir hún. Spurð hvers vegna hún stundi þá sauðfjárrækt segir hún að um ástríðu sé að ræða. Sama ættin hafi búið á býlinu í um 120 ár. „Mér fannst ég þurfa að taka við en mig langaði það líka.“

Sæunn fæddist árið 1990 en Þormar 1987. Hún er ekki bjartsýn á framtíð búsins. „Það er allt að hækka, allur kostnaður vegna rekstursins hækkar en greiðslurnar lækka. Þetta er skelfilegt núna.“ Hún segir að þau þurfi núna að taka að sér enn meiri aukavinnu.

Maríus á Hallgilsstöðum tekur í svipaðan streng og Sæunn en bætir við að sér finnist forysta Bændasamtakanna ekki hafa staðið sig. Nú reyni á menn að finna svör við þeirri stöðu sem upp er komin. „Ég er búinn að bíða eftir fréttum og vona að þeir hysji upp um sig og fari að tala hreint út.“

Sæunn Káradóttir og dóttir hennar, Signý Heiða Þormarsdóttir.
Sæunn Káradóttir og dóttir hennar, Signý Heiða Þormarsdóttir. Úr einkasafni

Hættur við að fjárfesta

Maríus hafði séð fyrir sér að byggja upp býlið og fjárfesta en ljóst sé að af því verði ekki. Hann bíður átekta og viðurkennir að hafa íhugað að hverfa til annarra starfa. Hann segir að breytt styrkjafyrirkomulag neyði hann til að fækka rollunum en óvissa ríkir um framhaldið. „Búið verður að reka sig sjálft.“ Hann segir að bændur í kring um sig reyni að skera niður kostnað. Fyrir utan fóður, plast og olíu og húsakost þurfi bændur að greiða fyrir fjallskil, dýralækna og lyf auk þess sem það kosti pening að senda lömbin í sláturhús. „Ég þarf að hafa eitthvað annað svo maður geti náð andanum,“ segir hann um fjárhaginn.

Hann bendir á að yngri bændurnir, sérstaklega þeir sem hafi fjárfest, séu í verstri stöðu auk þess sem erfiðara verði að fá fólk til að taka við stóru búunum, þegar þeir sem fyrir eru hætti. „Það er ekki bara verið að höggva í nýliðana heldur líka stóru flottu búin.“

Skýrist í næstu viku

Á meðan Maríus situr við eldhúsborðið og reiknar, og bændur um land allt bíða frétta, reynir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra að finna lausnir við vanda sauðfjárbænda. „Við erum að reyna að horfa á þetta í stærra sam­hengi og reyna að koma með lang­tíma­lausn­ir þannig að við séum ekki alltaf að upp­lifa end­ur­tekið efni,“ sagði hún við mbl.is í gær en í vikunni voru í atvinnuveganefnd kynntar tillögur um mögulegar lausnir á vandanum. Þeirra á meðal var að fækka fé um fimmtung. „Það er ým­is­legt hægt að gera og við skul­um bara anda ró­lega og þetta fer ekk­ert frá okk­ur en gömlu leiðirn­ar, við erum að reyna að sveigja fram hjá þeim,“ sagði Þor­gerður. Von er á fréttum í næstu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert