Fresta hefur þurft skólasetningu í Hvassaleitisskóla í vikunni vegna veikinda starfsfólks. Skólasetning átti að vera á mánudaginn en var frestað um tvo daga vegna veikindanna og átti hún að vera í dag. Það gekk ekki eftir og stendur nú til að skólasetning verði á morgun. Þá hefur þurft að fella niður kennslu í sex bekkjardeildum í Hörðuvallaskóla í Kópavogi vegna veikinda starfsfólks.
Frétt mbl.is: Skólasetningu í Hvassaleiti frestað
Á samráðsfundi sóttvarnalæknis með stjórnendum Hörðuvallaskóla og Hvassaleitisskóla, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis, umdæmis- og svæðislæknum sóttvarna á höfuðborgarsvæðinu og Matvælastofnun í dag var ákveðið að senda fleiri sýni í rannsóknir frá veikum einstaklingum og matvælum en þegar hefur verið gert. Veikum starfsmönnum verður ráðlagt að halda sig heima meðan niðurgangurinn gengur yfir og að auki í einn dag til viðbótar.
Enn fellur kennsla niður í Hörðuvallaskóla
Unnið er að sótthreinsun til að fyrirbyggja hugsanlegt smit en ekki hefur fengist staðfest hvað veldur veikindunum. Heilbrigðiseftirlitið hefur tekið sýni sem eru til rannsóknar en að svo stöddu liggur ekki ljóst fyrir hver orsakavaldurinn er að sögn Árnýjar Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins. Málið er unnið í fullu samráði við sóttvarnalækni.
„Við sendum sex bekkjardeildir heim í gær og það var sami fjöldi í dag. Vonandi erum við nú að sjá fyrir endann á þessu en mér sýnist að það sé eitthvað svipuð staða hjá okkur á morgun,“ segir Ágúst Frímann Jakobsson, skólastjóri Hörðuvallaskóla, í samtali við mbl.is.
Þar hafa heilbrigðiseftirlit og sóttvarnalæknir einnig verið skólayfirvöldum innan handar en haldinn var samráðsfundur í morgun vegna veikindanna.
„Ég á nú von á því að við verðum komin á fullan snúning á mánudag,“ segir Ágúst. „Þetta virðist ekkert ná til nemenda enn sem komið er alla veganna. En það eru náttúrlega margir starfsmenn sem hafa fundið fyrir einhverjum óþægindum. Það hefur þurft að fella niður kennslu hjá þessum nokkru bekkjardeildum en að öðru leyti höfum við getað haldið sjó svona nokkurn veginn.“
Eftirfarandi tilkynning barst frá Matvælastofnun nú fyrir skömmu:
„Á síðustu tveimur vikum hefur komið upp faraldur magakveisu meðal starfsmanna Háaleitisskóla – Hvassaleiti í Reykjavík og Hörðuvallaskóla í Kópavogi. Stór hluti starfsmanna í þessum tveimur skólum hefur veikst með magaóþægindum og niðurgangi sem varir í nokkra daga. Ekki hefur borið á ofangreindum veikindum meðal starfsmanna annarra skóla á höfuðborgarsvæðinu og þeir starfsmenn sem hafa veikst virðast ekki hafa smitað aðra í neinum mæli.
Rannsóknir á veikum einstaklingum hafa enn sem komið er ekki leitt í ljós sýkingarvald veikindanna og ekki er ljóst á þessari stundu hvernig einstaklingarnir smituðust en líklegt er að um matarsýkingu sé að ræða.
Á samráðsfundi sóttvarnalæknis með stjórnendum skólanna, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis, umdæmis- og svæðislæknum sóttvarna á höfuðborgarsvæðinu og Matvælastofnun var ákveðið að senda fleiri sýni í rannsóknir frá veikum einstaklingum og matvælum en þegar hefur verið gert. Veikum starfsmönnum verður ráðlagt að halda sig heima meðan niðurgangurinn gengur yfir og að auki í einn dag til viðbótar. Hvatt er til almenns hreinlætis og handþvottar og að farið sé eftir leiðbeiningum um meðferð matvæla. Ekki er talin hætta á að magakveisan breiðist út til nemenda og því ekki ástæða til að stöðva starfsemi skólanna á grunni sýkingarhættu.
Áfram verður fylgst náið með framgangi veikinda í þessum tveimur skólum og hvort faraldrar komi upp í öðrum skólum.“