Sveinbjörg segir framhaldið óráðið

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, fyrrverandi oddviti borgarstjórnarflokks Framsóknar og flugvallarvina.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, fyrrverandi oddviti borgarstjórnarflokks Framsóknar og flugvallarvina. mbl.is/Sigurður Bogi

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, fyrrverandi oddviti borgarstjórnarflokks Framsóknar og flugvallarvina sem verður óháður borgarfulltrúi þar sem eftir lifir kjörtímabils, segir framhald hennar í stjórnmálum eftir þetta kjörtímabil óljóst. Hún hefur ekki ákveðið hvort hún bjóði fram fyrir annað stjórnmálaafl í næstu borgarstjórnarkosningum. „Vika er langur tími í pólitík og hvað þá sjö, átta mánuðir,“ segir Sveinbjörg en þetta er fyrsta kjörtímabil hennar fyrir Framsóknarflokkinn.

Sveinbjörg hefur sagt sig úr Framsóknarflokknum en hún átti ekki samleið með restinni af borgarmálaflokki Framsóknar í ýmsum málum að hennar sögn. Skera innflytjendamálin sig sérstaklega þar úr. „Við verðum að spyrja okkur hvort flokkur sem er nýorðinn 100 ára ætli að vera smáflokkur í sveitarstjórnarpólitík eða hvort hann hafi kjark til að verða stór í höfuðborginni. Ég sé það ekki gerast,“ segir Sveinbjörg.

Hún vill að Framsóknarflokkurinn taki harðar á mörgum málum; lífeyrissjóðakerfinu, bólumyndun í hagkerfinu, að tekið verði á peningaprentunarvaldi einkabankanna að hugmyndum Frosta Sigurjónssonar og aðskilnaði einkabanka og fjárfestingarbanka. „Það þarf líka að taka á stækkandi málaflokki hælisleitenda. Er eðlilegt að meðferð hælisleitenda sem tekur viku í Noregi taki tvö til þrjú ár á Íslandi? Við þurfum að setja okkur stefnu hvernig við viljum hafa þetta,“ segir Sveinbjörg.

Spurð hvort von sé á breyttum áherslum frá henni í borgarmálunum nú þegar hún er orðin óháður borgarfulltrúi segir Sveinbjörg það skýrast betur með tímanum, en segist þó alltaf hafa komið til dyranna eins og hún er klædd og á því verði engin breyting. Hún segist einnig vona að þeir sem eftir eru hjá Framsóknarflokknum hafi áfram kjark og fái stuðning frá flokknum til að tala opinskátt um hlutina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert