Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir er hætt í Framsóknarflokknum. Þetta kemur fram á Facebook-síðu hennar.
Sveinbjörg hefur verið borgarfulltrúi og oddviti Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík en mun það sem eftir lifir kjörtímabils starfa sem óháður borgarfulltrúi.
Mbl.is greindi frá því í gær að Sveinbjörg Birna ætlaði að hætta í flokknum.
„Að undanförnu hefur mér það orðið ljóst að forystu flokksins skortir metnað til að vinna honum fylgis á höfuðborgarsvæðinu heldur virðist stefnt að því að halda honum sem sérhagsmunaflokki til sveita. Slíkt hugnast mér ekki þegar vinna þarf saman sem ein heild til að árangur náist til heilla fyrir þjóðina alla. Stóryrtar yfirlýsingar frá forystu flokksins um ummæli mín eru hjóm eitt. Flokkur sem er ekki tilbúinn að ræða mikilvæg málefni verður aldrei annað en smáflokkur,“ segir Sveinbjörg á Facebook-síðu sinni.
Hún segir framsóknarmenn skorta sannfæringu þegar þeir eru inntir eftir afstöðu sinni til málefna hælisleitenda.
„Í huga margra þeirra jafngildir það því að ganga fyrir björg að láta í ljós raunverulega afstöðu sína í málefnum hælisleitenda. Þeir telja að þau séu svo „viðkvæm“ að þeirra eigin sannfæring skipti ekki máli!“
Sveinbjörg Birna kveðst ekki veigra sér við því að ræða „viðkvæm mál“. „Ég ræði um öll mál af hreinskilni, hvort heldur í tveggja manna tali, ræðustól í borgarstjórn eða viðtölum í fjölmiðlum. Það vita kjósendur. Skiptir þá ekki máli hvort ég ræði um fjármál borgarinnar, húsnæðismál, samgöngumál, skólamál, velferðarmál eða málefni hælisleitenda,“ segir hún og nefnir að hún hafi í tvígang átt þátt í að Framsóknarflokkurinn hefur unnið stóra kosningasigra.