Tekur ekki 2 til 3 ár að afgreiða mál

Afgreiðslutími mála er ekki tvö til þrjú ár að sögn …
Afgreiðslutími mála er ekki tvö til þrjú ár að sögn upplýsingafulltrúa. Morgunblaðið/Kristinn

Það er fjarri lagi að meðferð mála hælisleitenda taki tvö til þrjú ár hér á landi, líkt og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, fyrr­ver­andi odd­viti borg­ar­stjórn­ar­flokks Fram­sókn­ar og flug­vall­ar­vina, hélt fram í samtali við mbl.is fyrr í dag. „Er eðli­legt að meðferð hæl­is­leit­enda sem tek­ur viku í Nor­egi taki tvö til þrjú ár á Íslandi? Við þurf­um að setja okk­ur stefnu hvernig við vilj­um hafa þetta,“ sagði Sveinbjörg.

Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, segir af og frá að það taki svo langan tíma að afgreiða mál undir eðlilegum kringumstæðum. Meðalmálsmeðferðartími allra afgreiddra umsókna um vernd á öðrum ársfjórðungi 2017 var 116 dagar, en mál í forgangsmeðferð tók að meðaltali 63 daga að afgreiða. Meðalmálsmeðferðartími umsókna um vernd styttist milli fyrsta og annars ársfjórðungs þessa árs. Mest styttist málsmeðferðartími umsókna sem afgreiddar voru í forgangsmeðferð, úr 98 dögum að meðaltali í 63 daga.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.

Þórhildur segir að vissulega geti einstök mál dregist á langinn. „Þegar það er kominn ákvörðun, kominn úrskurður og svo eru mál kannski endurupptekin. En heilt yfir þá er þetta málsmeðferðartíminn.“

Hún bendir þó á að hér sé aðeins verið að tala um málsmeðferðartíma Útlendingastofnunar. Það séu hins vegar aðeins þeir sem eru frá svokölluðum öruggum upprunalöndum sem þurfa að yfirgefa landið strax í kjölfar ákvörðunar. Aðrir megi vera á landinu á meðan kæra þeirra er tekin til meðferðar hjá kærunefnd, kjósi þeir að kæra. Þórhildur segir málsmeðferðartíma hjá kærunefnd þó einnig hafa verið að styttast og er hann styttri en hjá Útlendingastofnun.

Þrátt fyrir að málsmeðferðartími hafi styst á milli fyrsta og annars ársfjórðungs þessa árs

lengdist hann töluvert á milli síðasta ársfjórðungs 2016 og þess fyrsta árið 2017.

Kerfið sprakk í byrjun þessa árs

Þórhildur segir lengri málsmeðferðartíma á fyrsta ársfjórðungi þessa árs mega rekja til mikils fjölda hælisumsókna frá Makedónum í lok síðasta árs, en þær hafi verið hátt í 600. „Það var ekki hægt að ráða við það og kerfið sprakk. Við höfum verið að vinna okkur út úr því á þessu ári. Undir eðlilegum kringumstæðum, þegar fjöldi umsókna er viðráðanlegur, þá ætlum við okkur líka að afreiða mál í forgangsmeðferð á nokkrum dögum. Álagið hefur bara verið þannig að það hefur ekki verið hægt að koma því við.“

Hvað varðar samanburð Sveinbjargar við málsmeðferðartíma í Noregi segir Þórhildur í raun ekki hægt að bera okkur saman við Noreg, enda séu kerfin mjög ólík. „Þeir eru með það sem þeir kalla 48 klukkutíma meðferð og eru með lista af ákveðnum ríkjum sem fara í þá flýtimeðferð. Þetta eru Balkanlöndin, Georgía og fleiri. Hjá þeim eru þessar umsóknir í raun afgreiddar af lögreglu. Það er því erfitt að bera þetta saman við okkar kerfi. Allar umsóknir um hæli koma inn til okkar hjá Útlendingastofnun, allir fá aðstoð frá Rauða krossinum og allir fá viðtal við lögfræðing hjá Útlendingastofnun áður en ákvörðun er tekin. Í Noregi er umsóknin lögð fram hjá lögreglu, hún tekur viðtalið og ef aðstæður eru ekki metnar þannig að vísa þurfi fólki til norsku útlendingastofnunarinnar, þá þarf bara að skrifa undir einn pappír með það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert