Ein hugmyndin að rífa húsið

Orkuveituhúsið.
Orkuveituhúsið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Áfallinn kostnaður vegna athugunar á rakaskemmdum og myglu í húsi Orkuveitunnar við Bæjarháls er 460 milljónir króna. Kostnaður við viðgerðir verður minnst um 1.700 milljónir króna. Þetta kom fram á blaðamannafundi Orkuveitunnar um ástand hússins og tillögur að aðgerðum til lagfæringa. Ein tillagnanna er að rífa húsið, en tillögurnar eru allar dýrar að sögn Bjarna Bjarnasonar, forstjóra OR. Orkuveitan mun ekki ana að neinu við lagfæringar á húsinu að hans sögn og hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvaða leið verði valin.

„Veggurinn er mjög flókinn, gríðarlega flókinn. Þarna er ytri klæðning úr áli, síðan eru steypuplötur, einangrun, rakaspenna, klæðning að innan, ofnakerfi og síðan eru hlífar yfir öllu. Húsið sjálft hreyfist í vindi og þegar það er mikill vindur, þá fáum við sjóriðu á efstu hæðunum. Þetta þýðir að veggirnir eru svolítið á hreyfingu líka,“ sagði Bjarni.

Þrír möguleikar í stöðunni ef gera á við

Gera þarf við alla veggi svonefnds Vesturhúss, ef valið verður að gera við húsið. Þetta er niðurstaða úr þeim rannsóknum sem verkfræðingar hafa gert á húsinu. Einungis austurhlið hússins varð þó fyrir mygluskemmdum. 

„Ráðgjafarnir komu með valkosti. Einn þeirra er að gera við núverandi veggi. Það var samdóma álit ráðgjafanna að ráða frá því. Annar möguleikinn er að skipta alveg um alla veggi og byggja nýja. Það eru tvær leiðir sem þeir leggja til, annað hvort að byggja sambærilegt kerfi eða að gera hefðbundna útveggi úr stáli og timbri. Þriðja leiðin er að byggja kápu utan um húsið og láta veggina standa, en verja þá með því sem við köllum „regnkápu“.

Viðgerð á núverandi veggjum hússins kostar um 1.500 milljónir að teknu tilliti til 25% áhættuálags OR á kostnaði. Að sögn Bjarna eru engir kostir við að velja þessa leið, mikil áhætta og lítill líftími viðgerðarinnar, í mesta lagi 15 ár ef vel tekst til. Óvissa væri um árangur og ef leki kæmi upp að nýju, sæist hann ekki. „Þessi lausn er afskrifuð,“ sagði hann.

Sú leið að skipta um veggi og setja um sambærilegt gluggakerfi kostar um 2.900 milljónir. Að sögn Bjarna er ekki góð reynsla á Íslandi af slíkum kerfum og leiðin dýr. 

Hefðbundna útveggi með stáli og timbri kostar 2.400 milljarða að reisa. 

„Regnkápa“ er skásti viðgerðarkosturinn

Að sögn Bjarna er skásta lausnin að byggja „regnkápu“ utan á húsið, um einum metra frá útveggnum. Kápan yrði úr gleri.

„Þessi leið er ekki gallalaus og ekki áhættulaus heldur. Líftíminn er langur ef vel tekst til og þetta hefur marga kosti. Leki skiptir ekki máli, því hann nær ekki í veggina sjálfa og ef hann verður, þá er hann sýnilegur. 

Bjarni sagði á fundinum að húsnæðið hentaði illa starfsemi Orkuveitunnar.

„Þetta hús er rúmlega fimm þúsund fermetrar og nýtist ekki mjög vel sem skrifstofurými. Fleiri fermetra þarf á hvern starfsmann en í hefðbundnu skrifstofurými,“ sagði hann.

„Fyrir 1.740 milljónir mætti byggja jafnstórt húsnæði sem hentaði starfsemi Orkuveitunnar eða jafnvel stærra,“ sagði Bjarni.

Standa vörð um bótarétt

Bjarni ræddi um ábyrð á skemmdunum og ábyrð á Orkuveituhúsinu eftir að það var selt fasteignafélaginu Foss árið 2013. 

„Við óskað eftir því að matsmaður verði dómkvaddur til þess að meta ástæður tjónsins á húsinu, hvar ábyrgðin liggi og hvert tjónið er, fjárhæðin þ.e.a.s. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir, þá mun Orkuveitan kanna lagalega stöðu sína og hugsanlegan bótarétt. Við stöndum að sjálfsögðu vörð um hugsanlegan bótarétt, en í varúðarskyni höfum við ekki reiknað með neinum bótum í þeim fjárhæðum sem við erum að kynna hér,“ sagði Bjarni og vísaði til árshlutauppgjörs OR sem einnig var kynnt stuttlega á fundinum.

„Fjárhæðir í þessu máli eru verulegar í öllu samhengi. Í samhengi við rekstur OR, fjárhag sveitarfélaganna, við erum í opinberri eigu og almenningseigu. Við tökum þessu af mikilli alvöru, hvernig við bregðumst við og finnum lausn,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert