„Ekkert annað en hneyksli“

Dettifossvegur, eins og hann er að vestanverðu.
Dettifossvegur, eins og hann er að vestanverðu.

„Það er ekki boðlegt að þessi vegur skuli ekki hafa klárast fyrr,“ segir Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Eins og mbl.is greindi frá í gær var í ágúst gengið frá samningum vegna útboðs fyrir hluta vegarins á milli Dettifoss og Ásbyrgis. Þegar þeim framkvæmdum lýkur stendur eftir 8 kílómetra haft af niðurgröfnum moldarvegi sem ófær er stærstan hluta ársins. Ferðamenn munu enn ekki geta komist frá Mývatni og Dettifossi niður í Öxarfjörð, nema fara stóran krók um Húsavík og Tjörnes. Ferðaþjónustubændur á svæðinu hafa lýst því í fjölmiðlum að þetta standi ferðaþjónustu í Öxarfirði og austur fyrir Melrakkasléttu fyrir þrifum. Undir það taka viðmælendur mbl.is.

Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.
Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Valgerður bendir á að vissulega kosti framkvæmdir sem þessar peninga og þar sé ekki um að ræða neina smáaura. „En það bara verður að gerast á næsta ári að þessi vegur verði kláraður.“ Hún segir að um allt land séu vegir sem hafi setið á hakanum lengi – brýnar vegaumbætur. Dettifossvegur sé í þeim flokki. Vegurinn meðfram Jökulsá á Fjöllum sé ekki aðeins spurning um að ferðamenn fái notið þeirra náttúruperlna sem í héraðinu séu heldur sé um að ræða stórt byggðamál. Hún heitir því að berjast fyrir málinu á komandi þingi.

Fyrsti ferðaþjónustuvegurinn

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, segir það „hneyksli“ að menn hafi ekki fyrir löngu lokið við veginn. „Þegar Dettifossvegur kemur fyrst inn í vegaáætlun er hann skilgreindur sem fyrsti ferðaþjónustuvegurinn, ásamt Suðurstrandarveginum. Þetta væru tvær leiðir sem myndu gera mikið fyrir íbúa og ferðaþjónustu svæðanna.“ Mörg ár séu síðan Suðurstrandarvegur kláraðist. „Og það er bara fínt,“ bætir hann við. „En að Dettifossvegur skuli aftur og aftur hafa lent undir hnífnum er ekkert annað en hneyksli.“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fylgdu ekki verðlagi

Steingrímur bendir á að síðasta ríkisstjórn, sem hafi rýrt framlög til vegamála með því að láta þau ekki fylgja verðlagi, hafi á lokametrunum sett aukið fjármagn í vegamál. Þörfin hafi enda verið orðin knýjandi.  Um leið hafi hún tekið ákvörðun um að taka aðra vegi fram fyrir röðina. Þar nefnir hann vegi um Uxahryggi og Kjósarskarð. Hann tekur fram að þeir sem þar búi séu vel að vegaframkvæmdum komnir.

Hann rifjar upp að samgönguáætlun, sem þingið samþykkti í haust, hafi í raun reynst marklaust plagg þegar í ljós kom að ríkisstjórnin hygðist ekki fjármagna hana að fullu. „Það er látið eins og vegaáætlun sé ekki til.“

Þurftu að spara eftir hrun

Steingrímur sat í ríkisstjórn árin 2009 til 2013. Hann bendir sjálfur á að Dettifoss hafi verið lengi á döfinni. Liggur ábyrgðin ekki hjá fleirum en núverandi ríkisstjórn og þeirri síðustu? Hann segir að auðvitað megi segja það. „En það vita allir hvað við urðum að gera fyrst eftir hrunið. Við þurftum að spara á öllum póstum.“

Hann segir að þrátt fyrir það hafi ýmsar nýframkvæmdir verið í gangi og nefnir að vegirnir um Vopnafjarðarheiði og Hófaskarð hafi verið kláraðir á því kjörtímabili. „Við vorum byrjuð að bæta í en ég verð að segja að aukningin til vegamála hefur ekki verið í neinum takti við þjóðhagslega þróun. Ég hika ekkert við að segja að stór hluti af stöðunni núna liggur hjá ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka