Raski ekki lífríkinu á Hornströndum

Frá Hornströndum.
Frá Hornströndum. Ljósmynd//Umhverfisstofnun

Starfsstöð Umhverfisstofnunar á Ísafirði, sem hefur verið kölluð Hornstrandastofa, er að vinna í því með Byggðasafni Vestfjarða og Ísafjarðarbæ við að setja upp sýningu um friðlandið á Hornströndum.

Föst fjárveiting frá ríkinu vegna sýningarinnar nemur 12 milljónum króna á ári.

Jón Smári Jónsson, starfsmaður Umhverfisstofnunar, segir stofnunina vilja með sýningunni fræða almenning um verndun lífríkisins á svæðinu. Stefnt hefur verið að uppsetningu á sýningunni í langan tíma en búið var að steypa grunn hússins og hanna það að mestu leyti fyrir hrun.

Að sögn Jóns Smára er ekki búið að hanna sýninguna en Umhverfisstofnun mun leggja áherslu á upplýsingar um lífríkið á meðan Byggðasafn Vestfjarða sýnir muni sem tengjast menningarsögu svæðisins og miðlar upplýsingum tengdum henni.

Hornstrandir.
Hornstrandir. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Valdi engum spjöllum

Friðlandið á Hornströndum er skilgreint sem 1B, eða óbyggðasvæði, út frá flokkun alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum IUCN. Þannig hefur það nánast enga innviði en einstaklingum er heimilt að fara þar um með því skilyrði að þeir valdi þar engum spjöllum.

Jón Smári segir að óheft ferðamennska að viðkvæmum svæðum sé áhyggjuefni en Umhverfisstofnun hefur heimild til að takamarka umferð um slík svæði.

Í vor sendi stofnunin út tilmæli til allra ferðaþjónustuaðila sem nýta svæðið á Hornströndum, sérstaklega þeirra sem fara þangað með hópa ferðamanna, að sýna ábyrgð í sinni ferðamennsku. Þar voru sérstaklega nefndir sérstakir hlutar af Hornbjargi og mælt til þess að fámennari hópar færu um þá vegna viðkvæmni þeirra.

Jón Smári Jónsson.
Jón Smári Jónsson. Ljósmynd/Aðsend

Vinsælar refaskoðunarferðir

Jón Smári segir lífríkið mjög viðkvæmt á Hornströndum. Til að mynda er refurinn friðaður en þrátt fyrir það hafa ferðaþjónustufyrirtæki boðið upp á sérstakar refaskoðunarferðir fyrir hópa. Þar er refurinn jafnan ljósmyndaður í bak og fyrir og hefur slíkum ferðum fjölgað mjög.

„Þetta vekur upp ákveðnar áhyggjur og það er ekki bara okkar persónulega skoðun,“ segir hann og bendir á lög nr 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þar kemur fram í 12. málsgrein að allur óþarfa umgangur í grennd við refagreni sé óheimill.

Tafla/Umhverfisstofnun

Ekki nær en 40 metra

Umhverfisstofnun hefur í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands gefið út viðmiðunarreglur varðandi refaskoðun og þar eru fjarlægðarmörk tilgreind. Þar kemur fram að hópar og einstaklingar megi aldrei fara nær greni þeirra heldur en 40 metra og dvelji ekki lengur þar við en 20 mínútur í senn. Jón Smári segir reglurnar skýrar hvað þetta varðar en erfitt er fyrir Umhverfisstofnun að framfylgja þeim enda þurfa landverðir að fylgjast með 600 ferkílómetra svæði.

Hann greinir frá því að ferðamenni viti oftast ekkert um fjarlægðarmörkin og því hefur verið lögð áhersla á að fræða leiðsögumenn um þau í von um að þeir sýni ábyrgð. „Það eru þeirra hagmunir að raska ekki lífríkinu.“

Tafla/Umhverfisstofnun

Ferðamönnum fjölgað um 20% á ári

Spurður út í uppbyggingu innviða á Hornströndum segir Jón Smári svæðið vera stórt og viðamikið og mestur þunginn hjá Umhverfisstofnun hafi farið í landvörslu en vegna viðbótarframlags frá stjórnvöldum hefur hún verið efld.  „Við viljum hafa góða yfirsýn yfir svæðið og átta okkur á hvort ákveðin svæði séu undir ágangi.“

Tafla/Umhverfisstofnun

Fjöldi ferðamanna á Hornströndum hefur aukist um í kringum 20% á ári undanfarin ár. Umhverfisstofnun skiptir ferðalöngunum niður í dagsferðalanga og bakpokaferðalanga. Heildarfjöldi ferðalanga í fyrra er áætlaður í kringum sex þúsund og þar er langstærstur hluti dagsferðalangar sem koma oftast frá skemmtiferðaskipum.

Tafla/Umhverfisstofnun

Um 850 bakpokaferðalangar komu á Hornstrandir í fyrra og dvöldu þeir að jafnaði 4,84 daga á svæðinu. Hlutfall Íslendinga í þeirra hópi er orðið mun stærra en það var fyrir tíu árum síðan, eða um 10% í fyrra. Flestir bakpokaferðalangar í fyrra komu annars frá Bandaríkjunum, eða 26%.

Einnig má lesa spjall við Jón Smára um Hornstrandir á vef Umhverfisstofnunar. 

Tafla/Umhverfisstofnun
Tafla/Umhverfisstofnun
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert