Ólafur Jónsson, fyrrverandi handboltakappi í Víkingi og upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, á sér fortíð í unglingahljómsveitum. Nú hefur hann tekið upp þráðinn á ný og í næstu viku kemur út tíu laga geisladiskur hans. Hann er tileinkaður starfi Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og sumarbúðunum í Reykjadal.
„Geisladiskurinn er tileinkaður starfi fyrir fötluð börn,“ segir Ólafur. „Elva Rós, dótturdóttir mín í Þýskalandi, var fyrirburi þegar hún fæddist fyrir fimm árum og glímir við fötlun, þannig að hún er bundin hjólastól. Eigi að síður vaknar hún með bros á vör og er brosandi þegar hún fer að sofa. Heitið á plötunni er einmitt Bjarta bros.
Ég hef farið með Elvu Rós á æfingar hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, en þar er sams konar aðstaða og hún þekkir frá Þýskalandi. Ég þekki býsna vel hvað þessir krakkar verða af miklu oft á tíðum og hvað það gefur þeim mikla gleði þegar þau fá að leika sér við betri aðstæður en þau hafa víðast hvar. Markmiðið með plötunni er að styrkja krakka sem hafa ekki möguleika á að gera allt það sama og jafnaldrar þeirra með eðlilega hreyfigetu geta gert og Elva Rós kemur gagngert til landsins frá Þýskalandi vegna útgáfunnar.
Um 500 eintök plötunnar verða gefin og góðviljaðir móttakendur geta, ef þeir vilja, lagt inn á reikning hjá styrktarfélaginu til þess að styrkja kaup á tækjum fyrir sumarbúðirnar í Reykjadal.“
Ólafur lék á orgel með hljómsveitunum Jeremíasi og Steinblómi þegar hann var 16-19 ára. Sveitirnar náðu heimsfrægð upp úr 1970 í ákveðnum hverfum Reykjavíkur, nokkrum bæjarfélögum úti á landi og á Keflavíkurflugvelli, að sögn Ólafs.
Hann var á fullu í íþróttum og lék meðal annars 77 landsleiki í handbolta 1978-1983 og var fyrirliði liðsins. Hann var í gullaldarliði Víkings, sem vann til margra meistaratitla og var fyrir tveimur árum valið besta handboltalið á Íslandi.
Ólafur tók við sem framkvæmdastjóri Tónabæjar 1981 og segist vera stoltur af því að hafa árið eftir átt þátt í að koma Músíktilraunum á laggirnar. Úr Tónabæ lá leiðin á skrifstofu borgarstjóra þar sem hann starfaði í aldarfjórðung í yfirstjórn borgarinnar.
„Tónlistin hefur blundað í mér alla tíð og alltaf verið stutt í gítarinn eða píanóið,“ segir Ólafur. „Þegar ég hætti störfum hjá borginni fyrir tveimur árum var kominn tími til að gera meira á því sviði. Ég keypti mér lítið tónlistarstúdíó, sem ég er með í tölvunni, og fékk Hilmar Sverrissson upptökumeistara til aðstoðar. Á plötunni syngur Þorsteinn Þorsteinsson fjögur lög, en hann söng síðast með mér í hljómsveitinni Steinblómi á árum áður. Það er eins og snilldarröddin hans hafi geymst í formalíni í öll þessi ár.
Nánasta fjölskylda mín tók virkan þátt í þessu, þannig syngja Viktoría og Ísabella Jasonardætur, sonardætur mínar, samtals í sjö lögum, bæði aðalraddir og bakraddir. Ég syng í tveimur lögum og í öðru þeirra syngjum við saman Kristín eiginkona mín og börnin okkar, Jason og Baddý. Það lag fjallar um golf, en síðustu ár hefur mikill tími farið í spilamennsku og vafstur í kringum golfið í Öndverðarnesi og víðar.“
Ólafur segist hafa notið aðstoðar frábærra tónlistarmanna eins og Sigurðar Dagbjartssonar, Jóhanns Hjörleifssonar, Sigurðar Flosasonar og síðast en ekki síst Hilmars Sverrissonar. Sjálfur segist hann gutla á píanó á plötunni.
– En hvernig plata er Bjarta bros?
„Ég vildi hafa þetta skemmtilegt og lögin á plötunni eru flest þægilegar ballöður, en þó er þarna eitt alvörurokklag frá því í gamla daga. Ég er ánægður með útkomuna og hef sagt að þetta sé skemmtilegasta plata síðan Sumar á Sýrlandi kom út 1975,“ segir Óli Jóns. Svo er hlegið.