„Það er hálfsúrrealískt að tala um að 26% lækkun leggist vel í mann, en þetta er þó í rétta átt,“ segir Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda. Mbl.is greindi frá því í gær að Sláturfélag Suðurlands greiði um fjórðungi lægra dilkaverð til sauðfjárbænda núna, samanborið við árið í fyrra, en aðrir sláturleyfishafar hafa tilkynnt um allt að 35% lækkun á afurðaverði til bænda.
„Þetta eru skárri verð en fram hafa komið og að því leyti erum við ánægð með það,“ segir Oddný Steina og kveðst þó ekki alveg vita hvað hún eigi að lesa í ákvörðun SS. „Mögulega er fyrirtækið að taka einhverja samfélagslega ábyrgð með þessu, en þetta er engu að síður gríðarleg lækkun og breytir því ekki að staðan er alveg skelfileg fyrir reksturinn.“
Verðskrá SS var gefin út í gær og eru verð að jafnaði 26% lægri en í fyrra. Kílóverð fyrir lömb í algengasta flokki R2, lækkar úr 649 krónum við upphaf sláturtíðar í fyrra, í 481 krónu nú. Steinþór Skúlason, forstjóri SS, sagði í samtali við mbl.is, SS greiða 17-18% hærra verð fyrir kjötið en aðrir sláturleyfishafar. „Við borguðum fimm til sjö prósent meira en aðrir í fyrra og staðan er sú núna að við erum að borga 14 prósent meira, samkvæmt verðskrá,“ sagði hann.
Oddný Steina segir trúlegt að einhverjir muni þurfa að bregða búi vegna stöðunnar sem nú er uppi.
„Þetta hrun í verðum sem blasir við er ægilegt áfall,“ segir hún. Verðskrárnar frá öllum stóru sláturleyfishöfnum eru komnar, en þó ekki frá öllum. „Við höfum gríðarlegar áhyggjur af þessu og höfum í marga mánuði verið að reyna að finna einhverjar eðlilegar leiðir til að afstýra þessari þróun.“
Landsambandið hefur átt í viðræðum við stjórnvöld síðan í mars. „Um einhverjar aðgerðir sem við teljum fullkomlega eðlilegt að grípa til þegar eitthvað svona er að gerast, af því að þetta hefur líka gríðarleg áhrif á mörg samfélög í landinu.“
Fimm mánuðir eru frá því að þær viðræður hófust og segir Oddný Steina landbúnaðarráðuneytið í samvinnu við forsætis- og fjármálaráðuneyti vinna að tillögum. „Við erum ekki enn farin að sjá útfærðar leiðir sem að við sjáum að taki á þessu, en það kemur vonandi fljótlega.“
Hún segir þó orðið mjög seint að taka á ástandinu þar sem mikill skaði sé þegar skeður. „Raunar er þegar of seint að taka þessu því menn eru búnir að leggja út í allan kostnað fyrir næsta vetur og þurfa á næstu vikum að hvað þeir setji á af fé í vetur.“