Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden ávarpaði Pírata í dag á aðalfundi flokksins sem fer fram í Valsheimilinu. Ávarpið fór fram gegnum vefmyndavél og var varpað á tjald í fundarsalnum en Snowden er staddur í Rússlandi þar sem hann fékk dvalarleyfi eftir að hafa flúið Bandaríkin.
Snowden talaði meðal annars um að ótti hafi gripið um sig í heiminum og verði til þess að allt sé gert tortryggilegt. Þessu þurfi að taka á.
„Við þurfum að læra að umbreyta óttanum, hann má ekki stjórna ákvörðunum okkar,“ sagði Snowden. „Hvílíkir tímar sem við lifum. Við höfum aldrei haft það betra en það er eins og hvern dag séum við nær hamförum.“
Hann skaut föstum skotum að Donald Trump Bandaríkjaforseta.
„Nú sjáum við forsetann í mínu landi tala niður til fjölmiðla [...] Trump hefur ekki sómakennd og hann hefur aldrei þekkt ást sem hann hefur ekki þurft að borga fyrir,“ sagði Snowden og uppskar hlátur.
Aðspurður sagði Snowden að hann myndi þiggja íslenskan ríkisborgararétt hið snarasta ef hann stæði til boða.
Snowden var greinandi hjá bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni (NSA) er hann ljóstraði upp um ýmis leynigögn bandarískra stofnana. Þar í landi á hann yfir höfði sér ákærur sem gætu orðið til þess að hann þyrfti að afplána allt að 30 ára fangelsisdóm. Í janúar ákváðu rússnesk stjórnvöld að framlengja dvalarleyfi Snowdens um tvö ár til viðbótar.