Enn þá verður eitthvað um forföll vegna veikinda starfsfólks í Hörðuvallaskóla á morgun en vonast er til að hægt verði að halda uppi kennslu í öllum bekkjum. Vegna veikinda starfsfólks þurfti að fella niður kennslu í sex bekkjardeildum skólans í síðustu viku.
„Ég á von á því. Það eru að safnast inn upplýsingar um forföll en ég vonast nú til þess að við getum haldið úti kennslu,“ segir Ágúst Frímann Jakobsson, skólastjóri í Hörðuvallaskóla, aðspurður hvort kennt verði í öllum bekkjardeildum á morgun.
Á síðustu tveimur vikum kom upp faraldur magakveisu meðal starfsmanna bæði í Hörðuvallaskóla og í Hvassaleitisskóla í Reykjavík. Skólasetningu í Hvassaleitisskóla, sem átti að vera mánudaginn 21. ágúst, var frestað til föstudagsins 25. ágúst vegna veikindanna.
Fyrir helgi fór fram samráðsfundur sóttvarnalæknis með stjórnendum skólanna, heilbrigðiseftirliti, umdæmis- og svæðislæknum sóttvarna á höfuðborgarsvæðinu auk matvælastofnunar. Þar var ákveðið að send yrðu fleiri sýni til rannsóknar og var veikum starfsmönnum ráðlagt að halda sig heima á meðan niðurgangurinn gengi yfir.
Að sögn Ágústs hefur eitthvað minnkað í hópi veikra starfsmanna og á hann því von á að skólastarf geti haldið áfram með eðlilegum hætti á morgun. Enn eru þó einhverjir veikir og ekki liggur fyrir að svo stöddu hvað kann að hafa valdið veikindunum. „Það er starfsfólk sem er að skila sýnum og það á enn eftir að koma út úr því,“ segir Ágúst.