Fjölgun áfangastaða er bæði sóknar- og varnarleikur

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, segir samkeppnina yfir hafið vera …
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, segir samkeppnina yfir hafið vera helstu ógn við íslenska ferðaþjónustu í dag. mbl.is/Rax

Helsta ógnin við íslenska ferðaþjónustu er stóraukin erlend samkeppni í beinu flugi á milli Evrópu og Norður-Ameríku með nýjum langdrægari flugvélum. Þar með gæti Ísland hæglega misst stöðu sína sem tengistöð á þessari leið, en bæði WOW air og Icelandair byggja leiðarkerfi sín upp í kringum slíkar tengingar. Fjölgun áfangastaða er nauðsynleg til að verða ekki undir í þeirri samkeppni við erlend flugfélög, en takmörkuð uppbygging á Keflavíkurflugvelli undanfarið mun sjálfkrafa koma í veg fyrir þessa uppbyggingu. Þetta segir Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, í samtali við mbl.is, en undanfarið hefur félagið fjölgað til muna áfangastöðum sínum í Norður-Ameríku. Þá er á langtímaplani félagsins að byggja upp nýjar starfsstöðvar erlendis og nota sömu hugmyndafræði og hefur virkað hér til að tengja saman aðra markaði.

Sækja á nýja áfangastaði í Norður-Ameríku

Í síðustu viku kynnti WOW air fjóra nýja áfangastaði flugfélagsins í Norður-Ameríku og eru þeir nú orðnir 14 talsins, en aðeins tvö ár eru síðan fyrsta flug félagsins var farið vestur um haf. Skúli segir að félagið sé áfram að skoða uppbyggingu þar, en núna horfi félagið til millistórra borga í stað þeirra stærstu eins og fyrst hafi verið gert. Segir hann að með aukinni samkeppni frá erlendum félögum sem fljúgi beint frá stærri borgum Norður-Ameríku til helstu borga Evrópu þurfi flugfélög og að leita á ný mið og þar horfi WOW air til borga með 1-2 milljónir íbúa og jafnvel aðeins stærri.

Íslensku flugfélögin þurfa að búa sig undir aukna samkeppni

Skúli segir að samkeppnin yfir hafið muni aukast á næstunni og þannig sé Norwegian-flugfélagið rétt að byrja þótt það fljúgi frá fjölmörgum Evrópulöndum vestur um haf og JetBlue hafi nýlega kynnt áform sín á þessum markaði. Þá hafi IAG, móðurfélag British Airways, nýlega stofnað flugfélagið Level sem á að herja á þennan markað.

„Þetta er stærsta ógnin við núverandi leiðarkerfi WOW air og Icelandair og þar með ógn við ferðaþjónustuna í heild sinni,“ segir Skúli og bætir við að ef fækka þurfi flugleiðum sem tengifarþegar haldi uppi muni það um leið koma niður á fjölda ferðamanna hingað. „Þess vegna þarf að mynda samstarf um að þróa Keflavík sem öflugan tengiflugvöll, það er grundvöllur þess að þróa áfram ferðaþjónustu á Íslandi,“ segir Skúli, en hann hefur um nokkurt skeið verið harður gagnrýnandi þess að uppbygging á Keflavíkurflugvelli hafi ekki verið hraðari.

Áætla að farþegum fjölgi úr 3 milljónum í 4,3 milljónir

Í ár gerir hann ráð fyrir að farþegar WOW air verði um 3 milljónir, en miðað við áform félagsins á næsta ári gætu þeir orðið samtals um 4,3 milljónir. Segir hann að með þeirri fjölgun og fjölgun samkeppnisaðila sem notist við Keflavíkurflugvöll megi gera ráð fyrir því að flugvöllurinn verði sprunginn innan 1-2 ára. Hingað til hafi þetta gengið upp með blöndu af heppni og mikilli vinnu allra sem komi að því að skipuleggja flugið, en það sé ekki hægt að treysta á það mikið lengur.

Skúli hefur undanfarin ár reglulega vísað í áform WOW air um að hefja Asíuflug og í næsta mánuði verður fyrsta ferðin farin til Tel Aviv í Ísrael. Hann segir félagið þó horfa til talsvert meiri uppbyggingar í austri og að slíkt flug gæti verið grunnurinn að því að viðhalda þeim miklu flugtengingum sem nú eru til og frá landinu. „Áform um uppbyggingu í Asíu er liður í þessu. Það er sóknarleikur, en líka varnarleikur til að tryggja meiri fjölbreytni í leiðarkerfinu,“ segir hann en vísar jafnframt til þess að staða mála á Keflavíkurflugvelli sé helsti flöskuhálsinn við þessa uppbyggingu.

Nefnir Skúli flugvöllinn í Helsinki í Finnlandi sem dæmi um flugvöll þar sem ákvörðun hafi verið tekin um að byggja hann upp sem tengiflugsvöll milli Evrópu og Austur-Asíu. Segir hann Ísland vera í sama hlutverki með Asíuflugið, sérstaklega gagnvart austurströnd Bandaríkjanna.

WOW air hóf flug til Norður-Ameríku fyrir tveimur árum. Í …
WOW air hóf flug til Norður-Ameríku fyrir tveimur árum. Í dag eru áfangastaðirnir orðnir 14 og Skúli Mogensen gerir ráð fyrir að þeim muni fjölga á næstunni. Ljósmynd/WOW air

Ef tengiflugsmarkaðurinn bregst hefur það áhrif á ferðamenn

Fjölgun flugleiða er því að sögn Skúla ekki aðeins til að fjölga ferðamönnum heldur spurning um að verða ekki undir í samkeppni. „Margir halda að ég vilji bara troða fleiri farþegum inn í landið. Það er ekki málið, en ég er að benda á að ef við fjölgum ekki transit-farþegum [tengifarþegum] gætum við lent í því að beinar flugleiðir myndu ekki ganga upp lengur. Eina ástæðan fyrir að við getum haldið úti öllum þessum leiðum er að við erum að tengja saman markaði. Ef sá markaður bregst þurfum við að draga úr framboði og þá mun fjöldi ferðamanna til landsins snarminnka,“ segir hann.

Nýr flugvöllur væri „alveg glórulaus hugmynd“

Isavia hefur kynnt svokallað masterplan um uppbyggingu sína á Keflavíkurflugvelli og spurður út í þau áform segir Skúli að þar hafi hreinlega lítið verið gert þó að planið hafi verið á teikniborðinu í mörg ár. Svo hafi bæst við að rætt sé um uppbyggingu í Hvassahrauni. „Það er alveg glórulaus hugmynd,“ segir hann. „Að byggja annan flugvöll frá grunni sem er í 10 mínúta fjarlægð, fyrir jafnlítið samfélag og Ísland, það skil ég ekki.“ Segir Skúli að um sé að ræða fjárfestingu upp á 150-200 milljarða og ljóst sé að Keflavíkurflugvöllur myndi leggjast af í þeirri mynd sem hann er í dag ef farið yrði í uppbyggingu í Hvassahrauni.

Skúli segir WOW air áhugasamt um að fara í markaðsstarf og byggja upp flugleiðir til Asíu, en að það verði ekki fyrr en línur stjórnvalda í málefnum flugvallarins fari að skýrast sem og í málefnum ferðaþjónustunnar í heild sinni.

Stækka á Keflavíkurflugvöll samkvæmt svokölluðu masterplani. Skúli segir að lítið …
Stækka á Keflavíkurflugvöll samkvæmt svokölluðu masterplani. Skúli segir að lítið hafi hins vegar verið gert í þeim efnum þótt hugmyndin hafi verið á teikniborðinu í langan tíma. Mynd/Isavia

„Fólk hefur gleymt uppgjafartóninum sem var víða“

Undanfarið hefur borið nokkuð á því bæði hér á landi og á vinsælum ferðamannastöðum í Evrópu að heimamenn gagnrýni þá miklu fjölgun ferðamanna sem hafi orðið. Skúli segist skilja þessi sjónarmið íbúa, en bendir á að Íslendingar búi í stóru landi og megnið af því sé ósnortið. „Það gleymist oft að sjá búbótina sem ferðaþjónustan er búin að skapa fyrir öll landsvæði,“ segir hann. „Fólk hefur gleymt uppgjafartóninum sem var víða um landið, t.d. á Suðurnesjum þar sem var 15% atvinnuleysi. Nú er atvinnuleysi um 1% og það er allt ferðaþjónustunni að þakka,“ segir Skúli. Þá bendir hann á að í dag sé mun meira um heilsársþjónustu víða á landsbyggðinni sem ekki hafi verið áður. Því séu landsmenn í heild að njóta góðs af fjölgun ferðamanna, en standa þurfi mun betur að skipulagi við uppbyggingu innviða.

Skúli segist einnig þeirrar skoðunar að koma þurfi upp betra skipulagi á helstu ferðamannastöðunum, ekki ólíkt því sem þekkist víða erlendis. Að gestir þurfi að skrá sig með fyrirvara til að geta komið á helstu staðina og með því verði bæði hægt að stýra fjöldanum betur og bæta skilvirkni þjónustuaðila á staðnum. Hann tekur þó fram að þetta eigi bara við um stærstu staðina.

Kallar eftir 10 ára líkani og tvöföldun hringvegarins

Skúli kallar einnig eftir því að hið opinbera geri 10 ára líkan fyrir áætlaðan ferðamannafjölda og hefji innviðauppbyggingu í samræmi við það. Segir hann það ekki bara fyrir ferðamenn heldur einnig fyrir byggðastefnu og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. „Mesta búbótin fyrir landsbyggðina væri að tvöfalda hringveginn,“ segir hann og tiltekur að setja mætti upp vegatolla á völdum vegköflum til að fjármagna slíkar framkvæmdir.

Segist hann ekki skilja hvers vegna ekki hafi farið meira púður í að útfæra þessi mál núna þegar ferðaþjónustan er orðin þetta stór atvinnugrein og gríðarlega mikilvæg varðandi gjaldeyristekjur. „Þetta er áþreifanlegra en margt annað sem við höfum séð. En það er keyrt á galinni stóriðjustefnu sem byggir á að niðurgreiða aðflutningsgjöld, byggja vegi og göng og fella niður tolla og gjöld,“ en að enn séu menn að velta fyrir sér hvort fjárfesta eigi í ferðaþjónustu og innviðauppbyggingu.

Einbeitir sér að tækniþróun og erlendri starfsemi

Fyrr í þessum mánuði tilkynnti WOW air að Ragnhildur Geirsdóttir hefði verið ráðin sem aðstoðarforstjóri félagsins. Skúli segir að hluti af þeirri ákvörðun hafi verið að hann vildi geta einbeitt sér meira að þróun á undirliggjandi tækni og hvernig nýta megi snertingu fyrirtækisins við þær þrjár milljónir farþega sem fljúgi með félaginu á ári. Segist hann ekki vilja skýra þetta mikið nánar að svo stöddu, en að WOW hafi fjárfest mikið í þessari þróun að undanförnu.

Þá vilji hann einnig vinna að næsta skrefi WOW air sem hann segir að sé að opna nýja starfsstöð erlendis sem byggi á sömu grunnhugmynd og WOW air hér heima. „Við erum ekki að fara frá Íslandi, verðum hér áfram, en við ætlum að opna starfsstöðvar erlendis sem verða óháðar íslenska markaðinum og leiðarkerfinu hér.“ Segist Skúli ekki vilja gefa upp hvert hann sé að horfa í þeim efnum, en miðað við núverandi kerfi WOW air er um að ræða tengiflugskerfi með einum miðpunkti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert