Björgunarsveitarmenn fundu manninn sem var villtur á Fimmvörðuhálsi um klukkan hálfþrjú í dag. Hann var kaldur og blautur eftir að hafa verið þar um nóttina.
Maðurinn er frá Ungverjalandi og er á fimmtugsaldri.
Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir að svo virðist sem maðurinn hafi villst af leið. Hann var staddur rúman kílómetra frá stikuðu gönguleiðinni í bröttu gili.
Hann er nú kominn upp úr gilinu og fylgja björgunarsveitarmenn honum til byggða.
Að sögn Margrétar Ýrar Sigurgeirsdóttur, svæðisstjóra hjá Landsbjörg, var maðurinn með tvo síma og var rafhlaðan búin á öðrum þeirra.
„Hann var í frekar erfiðum aðstæðum ofan í gili. Það þurfti að hjálpa honum upp með fjallabjörgunarbúnaði,“ segir hún.