Kærunefnd útlendingamála hefur synjað nígerísku hjónunum Sunday Iserien og Joy Lucky um endurupptöku á máli þeirra og þar með staðfest ákvörðun um að senda þau og átta ára gamla dóttur þeirra Mary úr landi og til Nígeríu.
Hjónunum barst synjunin í dag, en þau hafa búið hér á landi í eitt og hálft ár. Hingað kom fjölskyldan í leit að betra lífi eftir að hafa upplifað ofbeldi, fátækt, hótanir og gríðarleg áföll í heimalandinu og á Ítalíu þangað sem þau flúðu fyrir níu árum. Þar var Joy fórnarlamb mansals, en Sunday hafði upplifað pólitískar ofsóknir í heimalandinu.
Hér á landi líður þeim vel, eins og fram kom í viðtali við þau á mbl.is í síðasta mánuði, þar sem þau sögðust jafnframt upplifa öryggi í fyrsta sinn í áratug. Sunday hefur starfað hjá sama byggingafyrirtæki síðastliðið eitt og hálft ár, og Joy hefur sótt íslenskunámskeið og kirkju hér á landi. Þá gengur Mary í skóla í fyrsta sinn á ævinni. Hér líður henni vel og hefur náð góðum tökum á íslensku. Hún er fædd á Ítalíu og hefur aldrei búið í Nígeríu.
Frétt mbl.is: Stúlkurnar „sviptar sínum rétti“
Hjónin biðluðu fyrr í sumar til almennings og stjórnvalda að skoða málið og leyfa þeim að vera áfram hér á landi, en þau segja dauðann bíða sín í heimalandinu. Þá voru undirskriftir 2.500 Íslendinga afhentar fulltrúa dómsmálaráðuneytisins fyrr í mánuðinum, þar sem þess var krafist að mál fjölskyldunnar yrði endurskoðað.
eir sem hafa kynnst hjónum við nám og starfi bera þeim góða söguna, og segja þau standa sig afburða vel.Joy er þó illa farin á sál og líkama vegna reynslu sinnar. Hún glímir við undirliggjandi andleg veikindi og hefur hrakað mjög mikið á seinustu vikum og mánuðum. Nú nýlega var henni vísað á bráðadeild og hefur hún hlotið aðhlynningu þar, og er í áframhaldandi meðferð.
Þá hefur fjölskyldan fundað með umboðsmanni barna þar sem fram kom að embættið teldi að í málum sem þessum væru réttindi barna oft brotin þegar réttur þeirra til að tjá sig væri sniðgenginn. Ekki væri hægt að ákvarða um hagsmuni barna eða hafa þá að leiðarljósi ef sjónarmið þeirra væru ekki tekin til greina.
Í nýjum útlendingalögum segir í 25. gr. að hagsmunir barns skuli hafðir að leiðarljósi. Barni sem myndað getur eigin skoðanir skuli tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og tekið skuli tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska.
„Við málsmeðferð fjölskyldunnar er því haldið fram af hálfu stjórnvalda að þau hafi það sem bestu [sic] fyrir Mary að leiðarljósi en það getur ekki staðist skoðun að það sé barni fyrir bestu að vera rifið upp með rótum og flutt til lands þar sem það hefur aldrei búið, og framtíð þess er ekki tryggð. Fjölskyldan átti fund með embætti umboðsmanns barna sem hefur lýst yfir áhyggjum sínum af málefnum barna sem óska eftir vernd hér á landi,“ segir í tilkynningu frá No Borders Iceland vegna málsins.
Segir þar jafnframt að litið hafi verið fram hjá því með öllu að Joy og fjölskylda hennar eigi enn þá á hættu að sæta ofsóknum af hálfu þeirra sem seldu hana í vændi fyrir hartnær áratug. „Vísað er til þess að hún geti leitað til yfirvalda þar í landi en margvíslegar skýrslur benda til þess að yfirvöld séu ýmist ekki hæf eða of spillt til að takast á við slík mál og að íbúar landsins treysti ekki yfirvöldum fyrir slíkum málum. Þá hafa tengsl fjölskyldunnar við landið einnig verið virt að vettugi.“
Fjölskyldan var með gilt dvalarleyfi á Ítalíu þegar þau komu hingað, vegna reynslu Joy og aðstæðna þeirra. Þau ákváðu að yfirgefa Ítalíu vegna stöðugra hótana samlanda Joy sem standa að baki mansali og vonuðust til að Ísland yrði friðsælli staður.