Björgunarsveitir á Suðurlandi voru boðaðar út rétt fyrir hádegi vegna illa búins göngumanns í sjálfheldu á Fimmvörðuhálsi.
Hann hafði lagt af stað gangandi frá Þórsmörk í gærkvöldi og gisti á Fimmvörðuhálsi í nótt.
Hann náði sjálfur sambandi við Neyðarlínuna og óskaði eftir aðstoð, orðinn kaldur og áttavilltur, að því er kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Með hjálp farsíma mannsins var hægt að áætla staðsetningu og eru hópar björgunarsveitarmanna á leið á það svæði að leita hans.