Ísabella enn í dvala

Hráefnisgeymslur verksmiðjunnar skemmdust í roki semma á árinu. Umhverfisstofnun gerði …
Hráefnisgeymslur verksmiðjunnar skemmdust í roki semma á árinu. Umhverfisstofnun gerði athugasemd við það og bað um lagfæringu sem enn hefur ekki verið gerð. Myndin er tekin í síðustu viku. mbl.is/Rax

Enn er slökkt á ljósbogaofni kísilversins United Silicon eftir að kísilmálmur lak út á gólf verksmiðjunnar í Helguvík á laugardag. Óvíst er hvenær kynt verður aftur upp í Ísabellu, eins og ofninn nefnist. Það verður að minnsta kosti ekki í dag. Unnið er að því að meta skemmdir sem hlutust af óhappinu um helgina og panta varahluti. „Við erum alltaf bjartsýnir, það er ekkert annað í boði,“ segir Kristleifur Andrésson, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, spurður hvort útlit sé fyrir að ofninn verði kyntur að nýju í bráð.

Á miðvikudag rennur út frestur United Silicon til að koma með athugasemdir varðandi þau áform Umhverfisstofnunar að stöðva starfsemina eigi síðar en 10. september. Þá er fyrirtækið nú í greiðslustöðvun og leitar nauðasamninga við lánardrottna sína.  Stærstur þeirra er Arion banki sem hefur lagt fyrirtækinu til um níu milljarða króna. „Þetta er bara í ferli,“ segir Kristleifur um stöðu viðræðnanna. „Við erum ekkert nema bjartsýnin. Við erum að vinna að fullu að því að koma hlutunum í gang aftur.“

Ljóst er að fara þarf í miklar endurbætur á verksmiðjunni er að stöðvun kemur líkt og Umhverfisstofnun hefur farið fram á. Að sögn Kristleifs verður ráðgjafi fenginn til að meta kostnaðinn. Upphæðin liggi því ekki endanlega fyrir.

Tugir kvartana síðustu daga

Að minnsta kosti tuttugu kvartanir um mengun frá verksmiðjunni bárust Umhverfisstofnun um helgina og í dag bárust um tíu til viðbótar. Fylgni er á milli kvartana um mengun frá kísilverinu og keyrslu ofnsins, þ.e. þegar hann hefur verið stöðvaður og þegar hann er keyrður upp aftur.

Íbúar í Reykjanesbæ hafa ítrekað gert athugasemdir við lyktarmengun frá …
Íbúar í Reykjanesbæ hafa ítrekað gert athugasemdir við lyktarmengun frá verksmiðju United Silicon í Helguvík. Samsett/Skjáskot

Rekstur ljósbogaofnsins Ísabellu hefur gengið brösuglega allt frá því að starfsemi í verksmiðjunni hófst í nóvember á síðasta ári. Frá gangsetningu hafa Umhverfisstofnun borist ríflega eitt þúsund kvartanir frá íbúum Reykjanesbæjar vegna mengunar og skráð hafa verið yfir tuttugu frávik í starfseminni, allt frá geymsluaðferðum og frágangi hráefnis til reykmettaðs lofts í húsum.

Úr tveimur ofnum í einn

Ísabella er enn sem komið er eini ljósbogaofninn í verksmiðjunni og er kynt meðal annars með kolum og trjákurli. Upphaflegt starfsleyfi gerði ráð fyrir tveimur ofnum en það var takmarkað við einn í mars á þessu ári. Oftsinnis hefur þurft að slökkva á henni en bæði þegar hún er að kólna og þegar hún er að hitna skapast aukin hætta á að óæskilegar lofttegundir berist út í andrúmsloftið. Fjöldamörg efnasambönd losna þegar jarðefnaeldsneyti, trjákurl og kol í þessu tilviki, brenna. En það eru aðstæðurnar, m.a. hitastig, sem stjórna því í hvaða hlutföllum efnin myndast.

Þessi efni eyðast nefnilega í kjörhitastigi Ísabellu sem er um 1900°C. Það hefur hins vegar ítrekað komið fyrir á síðustu mánuðum að hitinn hefur verið lægri. Þá getur myndun svokallaðra snefilmengunarefna margfaldast. Þessi efni geta til dæmis verið ediksýra, maurasýra, methyl-klóríð og ýmis aldehýð. Sum þeirra geta valdið ertingu þó að styrkur þeirra sé mjög lágur.

Ógleði og uppköst

Íbúar á Reykjanesi hafa kvartað undan ertingu, m.a. í hálsi og nefi. Þá hafa þeir kvartað um höfuðverki og öndunarerfiðleika. Enn hefur ekki fengist staðfest hvaða efni það eru sem valda menguninni því beðið er niðurstaðna mælinga norsku loftgæðastofnunarinnar NILU. Þeirra er að vænta fyrir mánaðamót og vonast er til að þær varpi ljósi á hvað veldur lyktarmenguninni og þeim einkennum sem íbúarnir hafa fundið fyrir.

Íbúar á Reykjanesi eru þó ekki þeir einu sem kvartað hafa undan mengun frá kísilverinu. Það hafa líka starfsmenn í fyrirtækjum í nágrenni þess gert. Í maí, er Umhverfisstofnun fór í fyrirvaralaust eftirlit á svæðið í kjölfar fjölda kvartana, höfðu margir starfsmenn fyrirtækis í námunda við verksmiðjuna fundið til líkamlegra einkenna, s.s. sviða í hálsi og ertingu í augum. Þeir höfðu einnig fundið fyrir ógleði og einn starfsmaður hafði kastað upp.

Gerðar hafa verið margar athugasemdir við frágang á lóð United …
Gerðar hafa verið margar athugasemdir við frágang á lóð United Silicon. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

En hvernig hafa starfsmenn United Silicon það?

Vinnueftirlitið hefur farið í allmargar eftirlitsferðir í kísilverið frá gangsetningunni í fyrra. Í vor var gerð krafa um heilsufarsskoðun á öllum starfsmönnum og fékk fyrirtækið sjálft lækni til að framkvæma hana eins og hefð er fyrir. Kristinn Tómasson, staðgengill forstjóra Vinnueftirlitsins, segir að sem „betur fer“ hafi skoðunin ekki sýnt „svo sem neitt til að hafa áhyggjur af“.

Kristinn segist þó vissulega hafa áhyggjur af þeim óstöðugleika sem verið hefur í rekstri verksmiðjunnar og áhrifa hans á bæði starfsmenn og umhverfi. „Vegna þessara frávika er okkar eftirlit þarna meira en hefðbundið er.“

Vinnueftirlitið hefur sett fram ákveðnar kröfur um úrbætur. Kristinn telur að farið hafi verið að flestum þeirra og frestir varðandi einhver atriði séu enn ekki útrunnir. Hann segir ekki ákveðið hvenær farið verði aftur fram á heilsufarsskoðun hjá starfsmönnum United Silicon.

Ýmsir annmarkar í umhverfismati

Í bréfi Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar í mars á þessu ári, þar sem farið var yfir stöðu mengunarmála í tengslum við kísilverið, var vakin athygli á „ýmsum annmörkum“ á matsskýrslu United Silicon sem liggur til grundvallar starfsleyfi fyrirtækisins. „Það sem fyrst ber að benda á er að allt matið og öll losun mengunarefna miðast við að rekstur verksmiðjunnar gangi eins og best verður á kosið,“ segir í bréfinu. Við þær aðstæður er ofninn keyrður á kjörhita sem tryggir að lítið sem ekkert myndast af þeim snefilefnum sem hér að ofan eru talin upp. Fram kemur í bréfinu að þegar ofninum sé slegið út, sem hefur ítrekað þurft að gera, þarf að lækka fljótlega í svokölluðu reykhreinsivirki. „Þar sem engir skorsteinar eru á ofninum eða ofnhúsinu berst sá reykur er myndast þegar ofninn kólnar niður, út um hurðir og loftræstiop á húsinu.“

Svo segir: „Ekki er gert ráð fyrir þessari losun í mati á umhverfisáhrifum.“

Með öðrum orðum: Ekki var farið yfir það í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum hvaða frávik geti komið upp og hver viðbrögð við þeim skuli vera. Ekki var gert ráð fyrir að mæla flest þeirra efna sem geta myndast ef hitastig ofnsins er of lágt „enda ekki gert ráð fyrir því í upphafi, hvorki í mati á umhverfisáhrifum né við starfsleyfisvinnslu, að þessi efni væru að myndast í mælanlegum styrk.“

Eftir þessar athugasemdir Umhverfisstofnunar er málið til skoðunar hjá Skipulagsstofnun.

Enn eitt atvikið

Það atvik sem varð í kísilverinu í Helguvík um helgina, er sjóðheitur kísilmálmur flæddi út á gólf, er ekki talið „alvarlegt atvik“ að mati Umhverfisstofnunar. Ekki að öðru leyti en því að um er að ræða enn eitt atvikið sem verður til þess að slökkva þarf á ofninum með tilheyrandi fylgikvillum er fylgja kólnun hans og uppkeyrslu.

Ævidagar ljósbogaofnsins Ísabellu hafa verið þyrnum stráðir. Hún hefur mest verið samfleytt í stöðugum rekstri í tæpar tvær vikur á þeim níu mánuðum sem liðnir eru frá því að verksmiðjan var gangsett formlega. Öðrum stundum hefur hún verið vakin og svæfð til skiptis á milli þess sem reksturinn hefur varað í nokkuð skamman tíma í senn. Umhverfisstofnun hefur ekki nákvæmt yfirlit um hversu oft á þeim tíma Ísabella hefur kólnað það mikið að snefilefnin sem tíunduð voru hér að framan gætu hafa orðið til og farið út í andrúmsloftið. „En það hefur gerst of oft að okkar mati,“ segir Einar Halldórsson, sérfræðingur stofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert