„Ég vil bara komast strax heim“

Flugi Wow air frá Miami hefur verið aflýst.
Flugi Wow air frá Miami hefur verið aflýst. mbl.is/Golli

Flugi Wow air frá Miami til Keflavíkur, sem lenda átti í nótt, hefur verið aflýst. Farþegum voru gefnir þrír valkostir en enginn þeirra þýddi ferð til Íslands í kvöld. Eins og áður kom fram rakst hleðsluvagn utan í vélina á flugvellinum í Miami.

„Ég hringdi í þjónustuver Wow air og þar voru mér gefnir þrír valkostir. Einn er endurgreiðsla, annar er að fara með næsta lausa flugi frá Wow og sá þriðji er að fara með flugi frá Wow sjö dögum seinna,“ segir Benedikt Sigurðsson, fyrirhugaður farþegi Wow, í samtali við mbl.is.

Reynir að komast frá New York

Benedikt var staddur við öryggishliðið á flugvellinum í Miami en hann ákvað að fljúga til New York í kvöld og reyna þaðan að koma sér heim á leið.

„Ég spurði hvenær næsta flug væri og hugsaði með mér að þeir gætu kannski hjálpað mér að komast til einhverrar annarrar borgar og svo heim. Mér var sagt að það ætti eingöngu við næsta lausa flug frá Miami og það er kannski eftir fjóra daga. Næsta flug þeirra heim er fullt, kannski kemst ég eftir fjóra daga en mér var sagt að það væri mjög ólíklegt,“ segir Benedikt og bætir við að hann hefði eflaust þurft að bíða í viku til viðbótar í Miami eftir heimferð.

Spurður hvort flugfélagið hafi boðist til að greiða hótel og uppihald hjá þeim sem ætluðu að dvelja áfram í Miami segir Benedikt að Wow hafi boðist til að greiða hótelið. „Ég spurði ekki meira út í þetta, ég vil bara komast strax heim. Ég spurði hvort þeir myndu borga ef ég kaupi flug til New York og þaðan heim. Mér var sagt að þeir borgi ekki innanlandsflugið í Bandaríkjunum en eflaust geti ég fengið að breyta miðanum frá Miami í New York og þurfi því ekki að borga fyrir frá New York til Íslands.“

Innanlandsflugið kostar 350 dollara

Benedikt þarf að greiða innanlandsflugið úr eigin vasa en miðinn frá Miami til New York sem hann keypti kostaði 350 dollara, eða um 36 þúsund íslenskar krónur. Benedikt vonast til að fá endurgreiðslu á fluginu frá New York, svo hann tapi ekki meiri peningum.

Hann kveðst hafa fengið fregnir af því að það yrði möguleg seinkun þegar hann var á leiðinni á flugvöllinn. „Þegar ég var kominn á völlinn þá fæ ég tölvupóst um að það væri búið að aflýsa fluginu. Með fylgdi linkur og þar gat ég séð hverjir mínir valkostir eru,“ segir Benedikt og bætir við að honum finnist óþægilegast að vita ekki hvenær hann kemst heim.

Ég er í skóla og þarf að mæta í tíma og vinnu. Þetta er rosalegt vesen. Núna hringi ég í yfirmanninn og segi honum að ég sé fastur í New York.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert