Eigendur biðskýlanna í hart við borgina

JCDecux hefur stefnt borginni fyrir að heimila uppsetningu auglýsingastada á …
JCDecux hefur stefnt borginni fyrir að heimila uppsetningu auglýsingastada á þremur stöðum innan 50 metra radíuss biðskýla þeirra, en í samningi milli borgarinnar og JCDecaux frá árinu 1998 um rekstur biðskýla í borginni skuldbindur borgin sig til að leyfa ekki afnot af borgarlandi undir auglýsingaskilti innan 50 metra radíuss frá skiltum JCDecaux. mbl.is/Brynjar Gauti

Fyrirtækið sem á og rekur strætóskýlin í Reykjavík hefur stefnt Reykjavíkurborg fyrir brot á samningi milli fyrirtækisins og borgarinnar um rekstur strætóskýlanna og kynningar- og auglýsingatöflur í borgarlandinu frá árinu 1998. Með samningnum skuldbindur Reykjavíkurborg sig til að leyfa ekki auglýsingar utan á fasteignum í eigu borgarinnar eða á borgarlandinu í minna en 50 metra radíus frá biðskýlum AFA JCDecaux.

Í stefnunni sem mbl.is hefur undir höndum kemur fram að staðsetning auglýsingaskilta WOW air við hjólastöðvar WOW citybike brjóti í bága við samninginn en auglýsingaskiltin eru sett upp með heimild Reykjavíkurborgar. Samningur borgarinnar og JCDecaux um rekstur biðskýlanna var gerður til 20 ára og rennur út í júlí á næsta ári.

Þrjú auglýsingaskilti WOW air eru innan 50 metra radíussins sem kveðið er á í samningnum. Skiltið við Hlemmtorg er í 20 metra fjarlægð frá biðskýli JCDecaux, auglýsingaskilti við Kjarvalsstaði er í 32 metra fjarlægð frá biðskýli fyrirtækisins og skilti við Lækjartorg er í tæplega 20 metra fjarlægð frá biðskýli.

„Með því að heimila þriðja aðila að setja upp auglýsingaskilti með þeim hætti sem stefndi hefur gert með samningi við WOW air ehf., hefur stefndi rýrt tekjumöguleika stefnanda og þannig skaðað hagsmuni hans sem áttu að vera verndaðir,“ segir í stefnu JCDecaux, þar sem enn fremur kemur fram að fyrirtækið áskilji sér rétt til að dómskveðja matsmenn á síðari stigum til að varpa frekara ljósi á endanlegt tjón vegna samningsbrotsins fallist héraðsdómur á skaðabótaskyldu.

JCDecaux hafnar skýringum Reykjavíkurborgar um að aðeins sé um kynningarskilti hjólaleigunnar að ræða; verið sé að auglýsa meginrekstur WOW air, flugfélagið en ekki leigu á tómstunda- og íþróttavörum. „Það er mat stefnanda að sú starfsemi sé ekki rekin með hagnaðarsjónarmið fyrir augum,“ segir í stefnunni um hjólaleiguna. „Heldur fyrst og fremst til að kynna meginstarfsemi WOW air.“

„Þetta hefur reyndar verið gefið í skyn af forstjóra WOW air í kynningarefni flugfélagsins,“ segir í stefnunni og bent á að borginni eigi að vera fullkunnugt um þær staðreyndir en borgin kjósi að líta fram hjá þeim í þeim tilgangi að brjóta samninginn vísvitandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert