Ekki amast við sofandi farþegum á gólfi

Mikill fjöldi var í Leifsstöð í júlí.
Mikill fjöldi var í Leifsstöð í júlí. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ferðalangar sem hafa átt leið um Leifsstöð í sumar, snemma morguns, hafa líklega tekið eftir sofandi flugfarþegum, sem liggja gjarnan eins hráviði út um allt á efri hæð flugstöðvarinnar. Legið er á bekkjum flugstöðvarinnar, stólum veitingastaða, á gólfinu og í raun alls staðar þar sem hægt er að liggja. Skarkalinn í kring virðist ekki raska ró þessa sofandi fólks með neinum hætti.

Er þetta breyting frá því sem áður var þegar farþegar lágu á gólfinu í innritunarsalnum og sváfu á meðan þeir biðu eftir að geta innritað sig. Var það orðið töluvert vandamál, enda hefur flugfarþegum fjölgað mikið síðustu misseri. Þegar verst lét var varla hægt að þverfóta fyrir sofandi farþegum í innritunarsalnum.

Í byrjun júní fór Isavia af stað í tilraunaverkefni í samstarfi við Icelandair, WOW air og Primera air þar sem farþegum þessara flugfélaga var boðið upp á innritun í morgunflug frá miðnætti. Verður verkefninu áframhaldið eitthvað fram í september en óvíst er með framhaldið. Það að hefja innritun fyrr hefur haft ýmis jákvæð áhrif, að sögn Gunnars Sigurðssonar, markaðsstjóra Isavia. Hefur það meðal annars dregið úr þeim vanda sem sofandi farþegar voru farnir að skapa í innritunarsalnum og létt á álagi við innritun.

Mikil mannþröng getur myndast í innritunarsalnum.
Mikil mannþröng getur myndast í innritunarsalnum. mbl.is/Sigvaldi Kaldalóns

„Það sem var gert í sumar var að flugfélögin opnuðu fyrir innritun á miðnætti og við opnuðum vopnaleitina. Svo hafa einhverjir verslunar- og veitingastaðir verið með opið frá miðnætti. Hugmyndin var að þeir sem ættu snemma flug gætu innritað sig snemma, losað sig við töskur og farið upp og hvílt sig þar í staðinn fyrir að gera það í innritunarsalnum með töskurnar. Það eru margir sem hafa nýtt sér þetta. Vandamálið hefur minnkað eftir því sem ég best veit. Það er ekki eins mikið af sofandi ferðamönnum, en það er alltaf eitthvað.“

Betra að farþegar sofi uppi en niðri 

Aðspurður hvort vandamálið hafi ekki bara verið fært til, og að nú séu sofandi farþegar um alla efri hæð byggingarinnar í staðinn, segir Gunnar betra að hafa fólk sofandi þar. Aðstaðan sé betri og plássið meira. Þá hafi fólk meira við að vera þar. „Það er betra að hafa fólk uppi. Þar er miklu meira pláss og fólk er ekki með allt sitt hafurtask eins og niðri. Fólk getur farið upp og lagst einhvers staðar ef það vill hvíla sig eða sofa, eða fengið sér að borða.“

Í stað þess að liggja sofandi í innritunarsalnum getur fólk …
Í stað þess að liggja sofandi í innritunarsalnum getur fólk nú verslað, borðað eða sofið á efri hæð flugstöðvarinnar. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Gunnar segir vandamálið hafa legið í því að farþegar voru að mæta í flugstöðina um miðnætti en innritun hófst ekki fyrr en um fjögur eða fimm. Biðin hafi því verið ansi löng. „Það fólk lá út um allan sal. Svo þegar fólk kom að tékka sig inn þá var fólk liggjandi út um allt og var fyrir. Það vandamál hefur minnkað.“

Veitingastaða að stugga við fólki 

Gunnar segir yfirleitt ekki amast við því að fólk leggist til svefns á efri hæð flugstöðvarinnar á meðan það er ekki fyrir öðrum gestum. „Við viljum ekki að fólk taki frá heilu bekkina og sofi þar ef það er mikill fjöldi í flugstöðinni. Ef það er hins vegar fámennt í flugstöðinni þá erum við ekkert að skipta okkur af fólki þegar það er komið upp.“ Gunnar segist ekki vita til þess að komið hafi upp vandamál vegna þessa í sumar.

Ef farþegar leggjast til svefns í rými veitingastaða í Leifsstöð verður starfsfólk þeirra sjálft að vísa fólki frá þyki svefnstaðurinn ekki heppilegur. „Ef fólk er farið að liggja eins og hráviði út um allt þá verður bara að stugga við því. Þetta er í sjálfu sér bara þannig,“ segir Gunnar.

Gunnar segir þægilegt fyrir fólk að geta losað sig við …
Gunnar segir þægilegt fyrir fólk að geta losað sig við farangurinn og farið upp í brottfararsal. Þannig tekur það líka minna pláss. mbl.is/Sigurgeir

Óvíst hvort boðið verður upp á þjónustuna áfram

Hann telur að í einhverjum tilvikum hafi þurft að fjölga mannskap í vinnu á efri hæðinni vegna tilraunarinnar, enda hafi tilgangurinn að miklu leyti verið að auka þjónustu við farþega. „Við vildum bjóða fólki upp á mæta mjög snemma og forðast þannig raðir. Fólk gæti þá og farið upp og verslað, eða gert það sem það vildi. Við vildum líka draga úr fjölda sofandi farþega í innritunarsalnum.“

Gunnar segir ekki búið að taka saman heildarárangurinn af þessari tilraun. Það verði gert í lok sumars. Það liggur hins vegar fyrir að töluverður fjöldi farþega hefur nýtt sér þetta breytta fyrirkomulag. „Hversu mikið fólk hefur nýtt sér þetta og hvort það er nógu hátt hlutfall til að við séum sátt, það á eftir að koma í ljós.“ Ekki er því búið að taka ákvörðun um hvort haldið verður áfram að bjóða flugfarþegum upp á að innrita sig frá miðnætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert