Innkalla Floridana-safa í plastflöskum

Floridana-safi í flöskum.
Floridana-safi í flöskum.

Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur ákveðið að innkalla Floridana-ávaxtasafa í plastflöskum þar sem einstök dæmi eru um að yfirþrýstingur hafi myndast í flöskunum. Óljóst er hvort um er að ræða galla í umbúðum eða skýringa sé að leita annars staðar, en meðan greining á sér stað telur Ölgerðin rétt að innkalla vöruna í plastflöskum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ölgerðinni. Þar segir að hreinir ávaxtasafar án rotvarnarefna séu eðli málsins samkvæmt kælivara og beri að meðhöndla sem slíka. Eftir að súrefni kemst í umbúðir og þeim lokað aftur geti aftur á móti með tímanum myndast þrýstingur í þeim.

„Rétt meðhöndlun er því ætíð mikilvæg og rétt að ítreka að slíka vöru á ætíð að geyma í kæli. Verði vart við yfirþrýsting í plastflöskum eftir að þær hafa verið opnaðar og þeim lokað aftur, er rétt að biðja neytendur um að gæta tilhlýðilegrar varúðar þar sem kraftur getur myndast þegar tappinn er losaður,“ segir í tilkynningunni.

Ölgerðin hefur þegar hafist handa við að stækka merkingar á umbúðum þar sem minnt er á að ferskir ávaxtasafar séu kælivara og beri að meðhöndla sem slíka, að því er fram kemur í tilkynningunni. Ítarleg greining er í gangi á hvort skýringa sé að leita í framleiðsluferlinu sjálfu og haft hefur verið samband við erlendan umbúðaframleiðanda í sama tilgangi.

Neytendur sem eiga Floridana-ávaxtasafa í plastflöskum geta skilað þeim til Ölgerðarinnar og fengið Floridana-ávaxtasafa í fernum í skiptum.

„Ölgerðin biður viðskiptavini sína velvirðingar á þeim óþægindum sem þessi innköllun getur skapað en telur rétt að innkalla ávaxtasafann í plastflöskum þar til skýring hefur fengist á þessum einstöku tilfellum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert