Vísbendingar eru um aukinn fjölda sjálfsvígstilrauna á síðustu dögum og margir hafa leitað til Landspítala vegna sjálfsvígshugsana. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Landspítalanum.
„Tvö andlát hafa orðið á geðdeild Landspítala á síðustu vikum. Mikill harmur hefur knúið að dyrum fjölskyldu og vina þeirra sem í hlut eiga og er þeim vottuð djúp samúð.
Vegna þessara alvarlegu atburða, sem þegar eru til rannsóknar hjá lögreglu, hafa velferðarráðuneytið, embætti landlæknis og Landspítali átt náið samráð og eru bæði málin í ítarlegri skoðun og greiningu.
Fyrir liggur að mikilvægt er að gera úrbætur á húsnæði geðdeildarinnar og er unnið að þeim.
Vísbendingar eru um aukinn fjölda sjálfsvígstilrauna á síðustu dögum og margir hafa leitað til Landspítala vegna sjálfsvígshugsana. Sérstökum ábendingum hefur verið komið á framfæri við aðrar heilbrigðisstofnanir á landinu af hálfu velferðarráðuneytisins og embættis landlæknis vegna þessa.
Undirritaðir hvetja þá sem glíma við sjálfsvígshugsanir til að vera í sambandi við sína meðferðaraðila eða hringja í hjálparsíma Rauða krossins í síma 1717 og ræða sína líðan. Séu sjálfsvígsáform til staðar skal hiklaust leita á bráðamóttöku geðdeilda eða almennar bráðamóttökur,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu frá velferðarráðuneytinu, embætti landlæknis og Landspítalanum.
Bent er á það af hálfu Landspítalans að staðfest sé með afgerandi hætti í í fjölmörgum rannsóknum að umfjallanir fjölmiðla um sjálfsvíg geta valdið svokölluðum snjóboltaáhrifum á sjálfsskaðandi hegðun viðkvæmra hópa.