Íbúar í Reykjanesbæ vöknuðu í nótt til að loka gluggum sínum vegna svækju sem talin er berast frá kísilveri United Silicon í Helguvík. Í morgun braust brælan inn þegar fólk opnaði útidyrnar hjá sér. Lykt frá fiskbræðslu finnst einnig í bænum en slíku eru íbúarnir vanir í gegnum árin.
Lyktarmengunin var mikil í gær og sérstaklega í gærkvöldi að sögn íbúa sem mbl.is hefur rætt við. Nokkrir vöknuðu svo í nótt vegna brunalyktar og sendu Umhverfisstofnun samstundis ábendingu. Þeir segja að í morgun hafi mengunin enn verið töluverð. „Ég er dauð í hálsinum. Eins og ég hafi verið að borða sandpappír,“ skrifar einn íbúi á Facebook.
Brunalyktin sem íbúarnir hafa ítrekað kvartað yfir finnst ekki alls staðar í bænum. Mest er hún í Heiðarhverfinu sem er í rúmlega kílómetra fjarlægð frá verksmiðjunni. Í gærkvöldi fannst hún hins vegar nokkuð víða um bæinn.
Eygló Anna Tómasdóttir, hjúkrunarfræðingur og fjögurra barna móðir, er meðal þeirra sem passaði upp á að gluggarnir væru lokaðir í gær og nótt. Hún segist ekki setja ungt barn sitt út í vagn að sofa á daginn og hafi ekki gert slíkt um hríð vegna kísilversins. „Ef ég get ekki andað þessu að mér en get tjáð mig um það þá set ég ekki ungbarn út í vagn sem getur ekki tjáð sig,“ segir hún.
Er fjórtán ára sonur hennar kom heim um klukkan 22 í gærkvöldi fylgdi honum mikil svækja að utan. Sjö ára sonur Eyglóar fór á golfæfingu í gær en þurfti að hætta vegna höfuðverkja. Golfvöllurinn er í næsta nágrenni kísilversins.
„Ég get ekki haft börnin mín úti. Þau búa ekki við það frelsi sem þau bjuggu við áður, að geta andað að sér hreinu og fersku lofti,“ segir Eygló sem telur mögulegt að ástandið í bænum og þau skilyrði sem þar hafa skapast standist ekki ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Frá því að kísilver United Silicon var gangsett í Helguvík í nóvember í fyrra hafa Umhverfisstofnun borist meira en þúsund kvartanir vegna lyktarmengunar og einkenna sem hluti íbúa finnur fyrir. Kvartanir haldast í hendur við virkni ofns verksmiðjunnar, þ.e. þeim fjölgar þegar slökkt er á ofninum og næstu daga á eftir og einnig þegar hann er keyrður upp að nýju. Nú hefur verið slökkt á ofninum frá því á laugardag og ekki er útlit fyrir að hann verði ræstur í dag að sögn talsmanns fyrirtækisins.
Þetta samhengi á sér skýringar. Við lægri hita en þann kjörhita sem kyndiefni ofnsins (kol og trjákurl) eiga að brenna á myndast óæskileg snefilefni sem geta m.a. valdið ertingu. Þessi efni eru hins vegar ekki mæld að staðaldri á svæðinu enda var ekki gert ráð fyrir að þau myndu myndast, hvorki í umhverfismati eða við vinnslu starfsleyfis, líkt og Umhverfisstofnun hefur bent á. Sértækar mælingar voru gerðar í sumar og er beðið niðurstaðna rannsóknar á þeim.
Eygló, sem sjálf hefur fundið fyrir líkamlegum einkennum frá því að verksmiðjan var opnuð, segist vera orðin ráðþrota. „Maður veit bara ekki hvert maður á að snúa sér, hvert maður á að leita. Umhverfisstofnun beitir sér ekki alveg eins og hún þyrfti að gera, ég veit ekki hvar landlæknir og sóttvarnalæknir eru. Og svo er það ríkisstjórn landsins.“
Eygló hvetur ráðherra ríkisstjórnarinnar til að kynna sér málið með eigin augum og mæta á staðinn. „Þau eru velkomin í heimsókn til mín. Ég get boðið þeim næturgistingu og kaffi.“