55 flóttamenn hingað til lands 2018

Þorsteinn Víglundsson, félagsmála- og jafnréttisráðherra.
Þorsteinn Víglundsson, félagsmála- og jafnréttisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin samþykkti í dag að bjóða allt að 55 flóttamönnum hingað til lands á næsta ári. Innan fárra ára er stefnt að því að tekið verði við 100 flóttamönnum á ári. Þetta kom fram í tíufréttum RÚV.

Þar segir að von sé á fólkinu í janúar, en það komi úr flóttamannabúðum í Jórdaníu og Kenýa en ekki liggi fyrir hverra þjóða það er. Þetta eru fleiri kvótaflóttamenn en koma hingað til lands í ár en álíka margir og í fyrra.

Haft var eftir Þorsteini Víglundssyni félagsmálaráðherra að þetta væri í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar að fjölga kvótaflóttamönnum sem tekið er við á ári hverju. Undir lok kjörtímabilsins sé gert ráð fyrir að tekið verði á móti hundrað kvótaflóttamönnum á ári.

Þá sagði Þorsteinn að litið yrði nú til fleiri hópa en sýrlenskra flóttamanna, sem mikil áhersla hefur verið á að taka á móti. Ástæðan væri sú að Alþjóðaflóttamannastofnunin hafi bent á að vegna mikillar áherslu á móttöku flóttamanna frá Sýrlandi hafi ýmsir aðrir hópar orðið út undan.

Kom auk þess fram að allt að tíu samkynhneigðum flóttamönnum, sem nú dveljast í flóttamannabúðum í Kenýa, verði boðið að koma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert