Hangir yfir samfélaginu eins og draugur

Á þessum slóðum myndi Hvammsvirkjun rísa.
Á þessum slóðum myndi Hvammsvirkjun rísa. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta er mál sem er búið að hanga yfir samfélaginu hérna eins og draugur í meira en áratug,“ segir Pálína Axelsdóttir Njarðvík úr samtökunum Ungsól sem berjast gegn Hvammsvirkjun í Þjórsá.

Pálína var viðstödd íbúafund sem var haldinn í Árnesi í gærkvöldi vegna endurskoðunar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Hún segir að lítið hafi verið fjallað um Hvammsvirkjun og virkjunarmál í kynningunni en umræður að henni lokinni snerust að stóru leyti um málefnið.

Að sögn Pálínu stigu nokkrir í pontu og hvöttu sveitarstjórnina eindregið til að hafna framkvæmdaleyfi vegna virkjunarinnar. Málið er á borði Skipulagsstofnunar sem gefur álit, sem ekki er bindandi. Eftir að álitið hefur verið gefið eru líkur á að lögð verði fram beiðni til sveitarfélagsins um framkvæmdaleyfi vegna virkjunarinnar.

Rekið úr partíum fyrir að tala um virkjunina

„Ungsól leggst eindregið gegn Hvammsvirkjun. Ég hef aldrei heyrt nein rök með virkjuninni sem halda vatni en það er af nógu að taka ef menn ætla að mótmæla henni,“ segir Pálína og bætir við að andstaðan fari vaxandi. „Þetta mál hefur klofið samfélagið og hefur skapað leiðindi og illindi. Þetta umræðuefni er rosalegt tabú og fólk ræðir þetta helst ekki. Fólk hefur verið rekið úr partíum fyrir að tala um þetta, þetta er þannig ástand.“

Pálína Axelsdóttir Njarðvík.
Pálína Axelsdóttir Njarðvík. Ljósmynd/Aðsend

Engir peningar eftir í sveitarfélaginu

Pálína segir að næsta skref hjá Ungsól sé að halda áfram að tala við fólk. „Er fólk í alvöru tilbúið til að fórna sveitinni okkar fyrir einhverja stóriðju þegar við græðum ekkert á þessu.“ Hún bendir á að engin störf verði eftir á svæðinu og engir peningar eftir í sveitarfélaginu þrátt fyrir virkjunina. „Við erum ekki að fara að mokgræða á þessu eins og sumir virðast halda því fasteignagjöldin eru öll hinum megin við ána. Þetta er ekki góð kaka fyrir okkur og þetta á eftir að sundra sveitinni enn frekar og valda ómældri vanlíðan hjá fólki sem er búið að helga líf sitt baráttunni gegn þessu.“

Sett ofan í skúffu

Að sögn Pálínu eru sextán manns virkir í Ungsól. Þegar Hvammsvirkjun var sett á deiliskipulag sveitarfélagsins voru þó 110 manns, allt ungt fólk, sem skrifuðu undir athugasemdir sem voru sendar til sveitarstjórnar. „110 athugasemdir í rúmlega 500 manna sveitarfélagi er svolítið mikið en við fengum engin svör. Maður fékk það á tilfinninguna að þetta hefði verið sett ofan í skúffu.“

Ekkert einkamál

Liðsmenn samtakanna Andstæðingar stóriðju í Helguvík mættu á fundinn í Árnesi í gærkvöldi og tóku til máls. Pálína er ánægð með komu þeirra. „Ef við virkjum og orkan fer þangað þá er þetta ekkert okkar einkamál. Við þurfum að hugsa hvað við erum að gera og fyrir hvað. Við eigum ekki bara að virkja af því að Landsvirkjun vill að við gerum það,“ segir hún og á von á því að Ungsól verði í samstarfi með samtökunum á Suðurnesjum á næstunni. 

Aukin rafbílavæðing hefur ekki áhrif

Oddviti sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps sagði í samtali við RÚV um fundinn í gærkvöldi að íbúar Skeiða- og Gnúpverjahrepps vilji ekki virkja ef rafmagnið fer í óþarfa en þeir séu annars tilbúnir til að virkja. „Þetta var ekki alveg okkar upplifun af fundinum en vissulega eru það ein af rökunum okkar gegn þessu,“ segir Pálína. Hún nefnir einnig að rætt hafi verið um á fundinum að með vaxandi rafbílavæðingu þurfi að virkja meira. „Það er bara ekki rétt. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, er nýbúinn að segja opinberlega að það þurfi ekki að virkja þó að rafbílaflotinn margfaldist. Það verður að passa að fara ekki frjálslega með staðreyndir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert