Mjög miklir hagsmunir í húfi

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru fjöl­mörg rök með því að það eigi ekki að vera sjálfsagt, ein­falt og auðsótt að koma og kaupa upp stór lönd á Íslandi, sér­stak­lega þar sem at­vinnu­starf­semi hef­ur verið stunduð,“ seg­ir Bjarni Bene­dikts­son for­sæt­is­ráðherra spurður um það hvort herða þurfi regl­ur um eign­ar­hald er­lendra rík­is­borg­ara á ís­lensk­um jörðum.

Frétt mbl.is: Kín­verj­ar vilja kaupa jörð á millj­arð

Mik­il umræða hef­ur skap­ast um málið eft­ir að upp­lýst var um áhuga kín­verskra fjár­festa á kaup­um á jörðinni Neðri-Dal í Bisk­upstung­um fyr­ir 1,2 millj­arða króna til að reka þar ferðaþjón­ustu. Jörðin, sem er 1.200 hekt­ar­ar að stærð, ligg­ur að Geys­is­svæðinu í Hauka­dal.

Seg­ir Bjarni að í þessu til­tekna til­viki muni þurfa und­anþágu þar sem um sé að ræða áhuga­sama kaup­end­ur utan EES-svæðis­ins. „Sam­kvæmt þeim verklags­regl­um sem hafa verið sett­ar og eru í gildi í ráðuneyt­inu er stærð þess­ar­ar jarðar langt um­fram þau viðmiðun­ar­mörk sem menn hafa verið að vinna með, þannig að fljótt á litið sýn­ist mér að það myndi eitt­hvað sér­stakt þurfa að koma til svo þetta mál yrði þar samþykkt en það verður auðvitað að ráða því til lykta á rétt­um vett­vangi,“ seg­ir Bjarni.

Frétt mbl.is: Þurf­um að vera vak­andi

Sjálfsagt að regl­urn­ar séu end­ur­skoðaðar

For­sæt­is­ráðherr­ann seg­ir það vera orðið áber­andi að þörf sé á því að ná bet­ur utan um heild­ar­um­fang er­lends eign­ar­halds á ís­lensk­um bújörðum. „Það eru mörg hundruð millj­ón­ir manna sem geta komið til Íslands og sóst eft­ir því að kaupa fast­eign­ir, jarðir og lönd án þess að það þurfi sér­stak­ar und­anþágur á grund­velli reglna EES-sam­starfs­ins,“ seg­ir Bjarni og bæt­ir við að slík jarðar­kaup hafi átt sér stað í aukn­um mæli á und­an­förn­um árum.

Bæt­ir hann við að sér finn­ist jafn­framt sjálfsagt að regl­un­um sé haldið lif­andi og þær séu end­ur­skoðaðar eft­ir því sem aðstæður kalla á. „Ég veit að í ráðuneyt­inu sem fjall­ar um þessi mál er það til skoðunar hvort þörf sé á að setja frek­ari höml­ur og að hvaða marki við get­um gert það inn­an reglna EES-sam­starfs­ins,“ seg­ir Bjarni.

Bend­ir Bjarni á að regl­urn­ar hafi verið skoðaðar í tengsl­um við áhuga Kín­verj­ans Huang Nubo á því að kaupa Grímsstaði á Fjöll­um. Síðar keypti breski millj­arðamær­ing­ur­inn Jim Ratclif­fe meiri­hlut­ann í Gríms­stöðum, en ekki þurfti und­anþágu þar sem Ratclif­fe kem­ur frá EES-svæðinu. Þrátt fyr­ir að regl­urn­ar hafi verið skoðaðar seg­ir Bjarni að ekk­ert sé því til fyr­ir­stöðu að þær verði end­ur­skoðaðar aft­ur núna.

Frétt mbl.is: „Gátu sagt sér að Kín­verj­arn­ir kæmu aft­ur“

Breyt­ing­ar á eign­ar­haldi óskyn­sam­leg­ar án þess að spyrnt sé við fót­um

Eins og mbl.is hef­ur greint frá hef­ur Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, vara­formaður og þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, óskað eft­ir fundi í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd Alþing­is í kjöl­far frétta af áhuga kín­versku fjár­fest­anna á jörðinni Neðri-Dal. Þá hef­ur Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, formaður flokks­ins, tjáð áhyggj­ur sín­ar af hugs­an­leg­um kaup­um og sagt Fram­sókn­ar­menn hafa mikl­ar áhyggj­ur af þess­um mál­um.

Spurður um það hvort hann sé sam­mála um­mæl­um Lilju og Sig­urðar Inga seg­ir Bjarni: „Ég tel að regl­urn­ar sem hafa verið í gildi um þessi efni og þau viðmið sem dóms­málaráðuneytið hef­ur sett um þessi mál hafi byggst á þess­um sjón­ar­miðum sem þau hafa verið að tefla fram – það er að segja að það sé óskyn­sam­legt fyr­ir þjóðir að láta mikl­ar breyt­ing­ar á eign­ar­haldi eiga sér stað án þess að það sé spyrnt við fót­um,“ seg­ir Bjarni og held­ur áfram:

„Því það eru mjög mikl­ir og víðtæk­ir hags­mun­ir í húfi sem tengj­ast allt frá full­veldi okk­ar Íslend­inga yfir í mat­væla­ör­yggi og byggðarsjón­ar­mið; að heilu sveit­irn­ar fari ekki úr bú­skap yfir í að vera frí­stunda­byggð í einu vet­fangi án þess að menn hafi íhugað lang­tíma­áhrif­in af slíku.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert