Kvarta yfir mat skólamötuneytis

Lækjarskóli í Hafnarfirði.
Lækjarskóli í Hafnarfirði. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Foreldrar og nemendur í Lækjarskóla í Hafnarfirði hafa kvartað talsvert yfir matnum sem er boðið upp á í mötuneyti skólans. Hafnarfjarðarbær samdi um mataráskrift við Skólaask, sem fyrirtækið ISS Ísland rekur, fyrir alla skóla í Hafnarfirði sem eru ekki með eigið mötuneyti. Á síðasta skólaári átti fulltrúi nemenda og starfsmanna við skólann fund með fyrirtækinu vegna óánægju með matinn og komu með ábendingar um það sem betur mætti fara.

Erna Árnadóttir á tvo nemendur í skólanum. Hún hefur gefist upp á að kaupa mataráskrift fyrir þá. Á síðustu árum hafa þeir verið í áskrift en sjaldnast borðað matinn sem var boðið upp á heldur borðað nestið sem þeir tóku með sér í skólann til öryggis. 

„Ég hef gefist upp. Mér finnst þetta hræðilegt,“ segir Erna. Hún segir mikla óánægju með matinn í skólanum og í þau skipti sem börnin hennar hafi borðað hann hafi þeim liðið illa. Dæmi eru um að maturinn hafi hreinlega verið búinn þegar þau komu í mat. 

Hún tekur fram að nemendum á unglingastigi standi til boða að fá hafragraut í skólanum og það hafi mælst vel fyrir. Hún segir það ekki boðlegt fyrir nemendur að fá ekki góðan mat í skólanum.  

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Skiptar skoðanir á matnum

„Það hafa verið skiptar skoðanir um matinn í mötuneytinu og nokkuð um óánægjuraddir. Það hafa allir sínar skoðanir eins og gjarnan er um matseld. Það er ekki hægt að gera öllum til hæfis,“ segir Haraldur Haraldsson, skólastjóri Lækjarskóla. Hann tekur fram að öllu lægra heyrist í þeim einstaklingum sem eru ánægðir með matinn. Honum er ekki kunnugt um hvort þeim hafi fjölgað sem eru óánægðir með matinn.

Hafnarfjarðarbær samdi um mataráskrift við Skólaask fyrir alla skóla í Hafnarfirði sem eru ekki með eigið mötuneyti. Hafnarfjarðarbær er með vinnuferli í gangi vegna ábendinga um matinn og hefur bærinn kallað eftir úrbótum á þjónustunni skv. þjónustusamningi sem gerður var í fyrra. Þeirri endurskoðun lýkur í lok september.

Spurður hvort það komi til greina að gera samning við annað fyrirtæki sem sér um matseld vísar hann til sveitarfélagsins sem fari með þau mál.

Fyrir nokkrum árum var maturinn eldaður frá grunni í Lækjarskóla en ákveðið var að gera samning við fyrirtæki sem kæmi með matinn í skólann. „Við ákváðum að það væri heppilegra að breyta þessu á þeim tíma en þetta hefur bæði kosti og galla,“ segir Haraldur og tekur fram að það sé betri kostur að matseldin fari fram sem næst börnunum. Hann bendir á að þegar matseldin fór fram í skólanum hafi heldur ekki allir verið ánægðir með matinn.

Haraldur Haraldsson, skólastjóri Lækjarskóla.
Haraldur Haraldsson, skólastjóri Lækjarskóla. mbl.is/Þorkell Þorkelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert