Hitamet var slegið á Egilsstöðum í dag þegar hiti mældist 26,4 gráður á mælinum við flugvöllinn á Egilsstöðum. Teitur Arason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að „allt hafi gengið upp“ sem orsakaði þennan hita: Loftmassinn yfir landinu er mjög hlýr og þannig hitti á að einnig var mjög sólríkt í dag.
Fyrra hitamet í september er frá árinu 1949 á Dalatanga en þar mældist hiti 26,0 stig 12. september það árið. Þann 14. september 1988 mældist hiti 25,8 gráður einnig á Dalatanga og er það þriðji hlýjasti dagur septembermánaðar frá upphafi mælinga.
Mesti hiti sem mælst hefur á Íslandi óháð mánuði var 22. júní 1939 þegar hiti fór upp í 30,5 gráður á Teigarhorni í Berufirði. Sama dag mældist hiti 30,2 stig á Kirkjubæjarklaustri og segir Teitur að mikil hitabylgja hafi verið á landinu þennan dag sem er um sólstöðurnar.
Miklar hitabylgjur voru árin 2004 og 2008 og þann 30. júlí 2008 fór hiti upp í 29,7 gráður á Þingvöllum.