Rannsakað jafnt til sektar og sýknu

Grímur Grímsson á leið í réttarsal í morgun.
Grímur Grímsson á leið í réttarsal í morgun. mbl.is/Hanna

Verjandi Thomasar Møller Olsen, sem ákærður er fyr­ir að hafa banað Birnu Brjáns­dótt­ur, spurði Grím Grímsson, sem fór með stjórn rannsóknar málsins, út í ýmsa þætti rannsóknarinnar í vitnaleiðslum í morgun. Meðal þess sem spurt var um var hvort starfsaðferðir lögreglu í málinu hefðu verið hefðbundnar.

Verjandinn, Páll Rúnar M. Kristjánsson, spurði Grím hvort myndband úr eftirlitsmyndavélum, sem sýndi rauða Kia Rio-bifreið, hefði verið unnið í þeim tilgangi að gera það skýrara. „Já, við reyndum allt,“ var svar Gríms sem sagði aðspurður að sú vinna hefði skilað árangri.

Hann sagði að það sama hefði verið gert við myndband sem sýndi ferðir bílsins við golfskálann í Garðabæ.

Kvartaði vegna framkomu

„Reynduð þið að endurskapa atburðina?“ spurði Páll.  „Nei, eki að miklu leyti,“ var svar Gríms.

Páll spurði hvort reynt hefði verið að endurskapa árásina og Grímur svaraði því einnig neitandi. „Ég ítreka að við reyndum ekki að endurskapa neitt, en við ókum þessar leiðir margoft og gerðum ítarlegar vettvangsskoðanir,“ sagði Grímur.

„Kannastu við að ákærði hafi kvartað undan meðferð,“ spurði Páll. „Ég kannast við það,“ svaraði Grímur.  „Veistu hverju hann kvartaði undan?“ spurði Páll. „Þetta var ekki vegna meðferðar, heldur hvernig talað var við hann,“ svaraði Grímur.

„Mátti búast við að rannsakað væri jafnt til sektar og sýknu?“ spurði Páll.

„Já,“ svaraði Grímur.

Páll rifjaði upp yfirheyrsluskýrslu þar sem kom fram að lögreglumaður hefði sagt við Thomas í yfirheyrslum að hann vissi að hann hefði drepið Birnu. „Eru þetta hefðbundnar stafrsaðferðir?“ spurði Páll.

„Ég myndi ekki segja það,“ var svar Gríms.

Því næst var spurt út í aðgerðir lögreglu um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq. Grímur sagði það ekki rétt að lögregla hefði tekið yfir stjórn skipsins.

Sækjandi spurði Grím engra spurninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert