„Drifu sig samstundis í burtu“

Samsett skjáskot frá tveimur myndböndum sem tekin voru þegar grjóthrunið …
Samsett skjáskot frá tveimur myndböndum sem tekin voru þegar grjóthrunið átti sér stað. mbl.is

„Þetta voru þó nokkuð margir steinar sem féllu þarna niður. Þeim var illa brugðið og þeim sýndist fyrst að steinarnir hefðu lent á einhverjum. Allir sem urðu vitni að þessu drifu sig samstundis í burtu.“

Þetta segir Björn Júlíus Grímsson, leiðsögumaður sem var á ferð með hóp við Seljalandsfoss fyrr í dag þegar skyndilegt grjóthrun varð. Lögreglan á Suðurlandi hefur nú lokað gönguleiðinni bak við fossinn.

Frétt mbl.is: Seljalandsfossi lokað vegna hruns

Meðfylgjandi er myndband sem Renee Green, farþegi úr hóp Björns, tók við fossinn í dag þar sem sjá má grjóthrunið.

Hundrað kílóa steinar

Í samtali við mbl.is segist Björn hafa séð fulltrúa lögreglunnar ganga um svæðið með lokunarborða á þessum tíma.

„Ég veit því ekki hvort eitthvað hafi líka verið að detta þarna niður fyrr í dag.“

Í tilkynningu lögreglunnar segir að steinarnir hafi sumir hverjir vegið að minnsta kosti 100 kg hver.

„Steinarnir duttu mjög nálægt svæðinu þar sem fólk var að ganga. Það var virkileg hætta af þessu og full þörf er á lokuninni,“ segir Björn og bætir aðspurður við að ekkert sár hafi verið sjáanlegt í berginu eftir hrunið.

„En það þarf að kanna brúnina, ef hún er það léleg að þessar rigningar valda þessu þá er hætta til staðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka