Birgir Sævarsson og Elísabet Margeirsdóttir sigruðu Hengil Ultra Trail 100 km hlaupið sem fram fór um helgina. Þau komu í mark á nánast sama tíma, rúmum 16 klukkutímum og 42 mínútum. (16:42:49 og 16:42:50).
Sigurjón Ernir Sturluson var fyrstur í mark í 50 km hlaupinu á tímanum 5:33:51. Viðar Bragi Þorsteinsson hafnaði í öðru sæti á 5:45:17. Eva Ólafsdóttir var fyrst kvenna í mark í 50 km hlaupinu en hún hljóp á 7:37:57. Önnur var Christine Buchholz á tímanum 8:32:45
Hér er hægt að skoða úrslit hlaupsins
Sjö luku keppni í það heila í 100 km brautinni og kom sá síðasti í mark á tæpum 20 klukkutímum. Elísabet var eina konan sem hljóp 100 km í ár. Sigrinum í 100 km fylgir nafnbótin konungur og drottning eldfjallsins sem þau bera að næstu keppni, 1. september 2018.
„Til marks um erfiðleika stuðul 100 km hlaupsins í gær þá hættu þrír keppendur keppni eftir að hlaupið var ræst. Tveir keppendur eftir rúmlega 20 kílómetra og sá þriðji eftir að hafa hlaupið meira en 55 kílómetra. Skrifast það á slæm veðurskilyrði og erfitt skyggni en keppendur voru ræstir á miðnætti aðfaranótt laugardags þannig að í ofan á lag bættist svo myrkrið við fyrstu rúmlega fimm klukkutímanna af keppninni. Keppnin er erfiðasta og lengsta utan vega hlaupakeppni landsins og alls ekki fyrir aðra en þaulvana hlaupara,“ segir í tilkynningu frá mótshöldurum.
Ingvar Hjartarson var fyrstur í mark í 24 km hlaupi í Hengill Ultra á tímanum 1:47:32 og Andrea Kolbeinsdóttir á tímanum 1:56:56. Rúmlega 100 manns voru skráðir í þá vegalengd.
Keppendur komu allsstaðar af í heimunum til að keppa í Hengil Ultra Trail en keppendur frá Ítalíu, Austurríki, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Ástralíu voru á meðal keppenda sem komust á pall í honum ýmsu aldurshópum og vegalengdum.
Mótið var ræst í Hveragerði og þaðan hlaupið upp Reykjadalinn og alveg upp á og yfir Hengilinn í lengstu vegalengdunum.
Þátttaka í 24, 50 og 100 kílómetra vegalengdunum í Hengill Ultra tryggir keppendum þátttöku punkta í Mont Blanc hlaupunum. Hengill Ultra, Esjuhlaup og Laugavegshlaup ÍBR eru einu hlaupin á Íslandi sem eru í samstarfi við þessa vinsælu keppni í Sviss, segir enn fremur í tilkynningu.