Ágúst Kvaran ofurhlaupari er kominn í mark í UTMB Ultra-Trail du Mont-Blanc hlaupinu sem nú fer fram í Sviss. Von er á Gunnari Júlíssyni í mark eftir hádegi en hlaupaleiðin er 166 km löng og hækkunin 9.600 metrar.
Hlaupið er eitt erfiðasta í heimi en alls hófu 2.547 hlauparar keppni. Af þeim hafa yfir 800 hætt keppni. Ágúst hljóp á 38:15:08 og kom í mark snemma í morgun. Hann var fjórði í sínum aldursflokki í hlaupinu og af heildinni var hann númer 570 í mark.
Líkt og fram kom á mbl.is í gær hafnaði Þorbergur Ingi Jónsson í sjötta sæti CCC hlaupsins en þá er hlaupaleiðin 101 kílómetri auk þess sem hækkunin nemur um 6.100 metrum.
Líkt og í fyrra hljóp dóttir Ágústs, Melkorka Árný Kvaran, líka í ofurhlaupinu í Sviss en hún hljóp OCC hlaupaleiðina sem eru 56 km og um 3.500 hækkun.
Í viðtali við þau feðgin í fyrra kom fram að Ágúst reimaði hlaupaskóna á sig tæplega fertugur. Síðan hefur hann ekki hætt að hlaupa.