Halldór hættir eftir kjörtímabilið

Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata
Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata

Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata í Reykjavík ætlar ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu í borgarstjórn að núverandi kjörtímabili loknu. Hann tilkynnti þetta á aðalfundi Pírata í Reykjavík í dag og segir frá þessu á Facebook-síðu sinni nú fyrir stuttu síðan.

Hann segist frá upphafi hafa horft til þess að sitja að hámarki tvö kjörtímabil, en að hann hafi nú ákveðið að sitja bara eitt. „Ég fór alltaf inn í þessa vinnu með það fyrir augum að vera í mesta lagi tvö kjörtímabil og meta eftir því sem á liði hvort ég treysti mér í tvö eða bara eitt. Ég tek hér strax fram að ég kem að sjálfsögðu til með að taka áfram virkan þátt í grasrótarstarfi Pírata. Ég er ekki að fara neitt nema úr borgarstjórn en það geri ég ekki fyrr en kjörtímabilinu lýkur. Í nafni heiðarleika og gagnsæis tilkynni ég þessa ákvörðun mína núna. Það eru spennandi tímar í vændum og ég mun miðla af minni reynslu til þeirra sem bjóða sig fram til að taka við keflinu.

Halldór fer í póstinum yfir þau áherslumál sem hann segir Pírata hafa staðið fyrir meðal annars stefnumótunarvinnu í upplýsingamálum og rafræna þjónustumiðstöð. „Sitthvað mælir með því að það verði ég sem stend áfram í brúnni til að fylgja allri þessari vinnu fast eftir - en málið er að það er ekki bráðnauðsynlegt að það verði ég. Aðalmálið er að Píratar komi sér upp góðri stefnu fyrir Reykjavík og sveitarstjórnarstigið almennt og keyri hana áfram næsta vor,“ segir Halldór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert