Fyrsta skrefið í átt að 100 þúsund króna frítekjumarks atvinnutekna ellilífeyrisþega verður stigið um áramót þegar frítekjumark atvinnutekna verður sett í 20 þúsund krónur. Frítekjumarkið kemur til viðbótar 25 þúsund króna almenna frítekjumarkinu sem nú er til staðar.
Í samtali við mbl.is segir Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, að nýja frítekjumarkið verði inn í ríkisfjárlögum komandi árs og sé þess vegna partur af fjárlagavinnunni sem bíður þingsins. Þorsteinn segir lífeyriskerfið hafa verið einfaldað mikið á undanförnum árum sem var liður í því að auka ávinning fólks út úr kerfinu.
Hugmyndir eru uppi um að bjóða upp á helmingaskipt kerfi lífeyristöku og launa að fyrirmynd þess að fresta lífeyristöku um ár og hækka greiðslurnar á móti.
„Þetta ætti að auka sveigjanleikann sem fólk hefur,“ segir Þorsteinn en hann segir árangurinn af breytingum sem gerðar hafa verið á kerfinu hafa komið sér vel fyrir tekjulægri helming ellilífeyrisþega en tekjur þeirra hækkuðu um 25 prósent milli ára 2016 og 2017.