„Erum ekki búin að gefast upp“

Abrahim og Hanyie Maleki í afmælisveislunni á Klambratúni.
Abrahim og Hanyie Maleki í afmælisveislunni á Klambratúni. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Afgönsku feðginin Hanyie og Abra­him Maleki fengu að vita það í morgun að þeim verður vísað úr landi. Kærunefnd útlendingamála hafði tekið fram að þau væru í sérstaklega viðkvæmri stöðu en Abrahim er bæklaður eftir bílslys. 

Áður hafði komið fram að til stæði að senda þau úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar en þau hafa verið hér á landi síðan um jólin. Ný gögn í máli þeirra voru lögð fram en Guðmund­ur Karl Karls­son, sem þekk­ir feðgin­in vel og hef­ur verið þeim inn­an hand­ar, segir að greinilega hafi verið búið að ákveða að afgreiða þau fljótt úr landi.

Skýrt merki um stefnu stjórnvalda

„Nýju gögnin voru skoðuð og kærunefnd samþykkti að taka tillit til gagnanna. Í sama skjali var fyrri úrskurður, um að þeim yrði vísað úr landi, ítrekaður. Þetta er skýrt merki um stefnu stjórnvalda í þessum málum. Það á bara að afgreiða alla út eins fljótt og auðið er,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

Hann segir að í rökstuðningnum fyrir brottvísuninni hafi komið fram að ekki sé ástæða til að ætla að Þýskaland taki ekki tillit til stöðu þeirra. „Dæmin hafa sýnt að það er ekki rétt. Diplómatískt verða þeir að orða þetta svona, þó það sé bull,“ segir Guðmundur.

Hanyie Maleki.
Hanyie Maleki. mbl.is/Hanna

Haldið var upp á 12 ára af­mæli Hanyie á Klambra­túni í byrjun ágúst þangað sem fjöldi fólks lagði leið sína til að fagna með feðginunum og sýna þeim stuðning í verki. Hanyie verður ekki 12 ára fyrr en í október en hana langaði að halda upp á afmæli hér á landi. Guðmundur segir að niðurstaða morgunsins sé feðginunum mikil vonbrigði.

Niðurstaðan klárt mannréttindabrot

„Þau eru að melta þetta. Við ætlum að ákveða hver næstu skref eru og erum ekki búin að gefast upp,“ segir Guðmundur og bætir við að þessi úrskurður hafi verið síðasta lögfræðilega úrræðið í málinu.

„Núna förum við að mótmæla þessari niðurstöðu, sem er klárt mannréttindabrot. Þetta er vond stefna stjórnvalda sem felur ekki neitt annað í sér en fordóma og viljaleysi til að takast á við vandann með heiminum. Við ætlum að sitja á okkar skeri og láta alla aðra hugsa um þetta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert