Þjóðarpúls Gallup, sem gerður var 31. ágúst, sýnir aukið fylgi við Flokk fólksins, sem mælist nú með 10,6% fylgi á landsvísu. Flokkurinn fengi sjö þingmenn kjörna ef gengið yrði til alþingiskosninga nú.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, segir að mögulegt sé að Flokkur fólksins hafi tekið við af Pírötum að einhverju leyti sem farvegur fyrir óánægða kjósendur.
„Við horfðum upp á það á síðasta kjörtímabili að Píratar voru stundum að mælast með 30% eða meira og það var greinilegur farvegur fyrir óánægju, en nú eru þeir ekki að mælast með nema 13%,“ segir Grétar Þór í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.