Hnepptur í tveggja vikna varðhald

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Síbrotamaður, sem lögregla álítur að sé frá Marokkó, hefur verið hnepptur í tveggja vikna gæsluvarðhald. Maðurinn, sem hefur að sögn lögreglu komið víða við sögu lögregluyfirvalda í öðrum löndum, var á föstudaginn handtekinn í Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða.

Samkvæmt heimildum mbl.is hafði maðurinn í hótunum og var lögregla kvödd til þess vegna. Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi vildi ekki staðfesta það í samtali við mbl.is, en sagði að það væri mat lögreglu að maðurinn væri hættulegur. Verðir frá Securitas hafa síðan staðið vaktina við þjónustumiðstöðina.

Maðurinn var aftur handtekinn um helgina, þá í Skeifunni. Að sögn Guðmundar er mál hans í „brottvísunarferli“ hjá stjórnvöldum en ekki þótti annað fært en að krefjast gæsluvarðhalds yfir honum. Að sögn Guðmundar hefur erfiðlega gengið að fá rétt nafn og aðrar grunnupplýsingar um manninn uppgefnar. Embættið hefur verið í samskiptum við erlendar fangelsisstofnanir vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert