Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, segist hafa ríka samúð með stöðu flóttafólks frá Afganistan og Nígeríu sem ákveðið hefur verið að vísa úr landi. Hann segir að það þurfi að gæta að því að móttaka flóttamanna dragist ekki á langinn en nígeríska fjölskyldan hefur verið hér í eitt og hálft ár.
„Ég hef mjög ríka samúð með stöðu þessa fólks. Við verðum auðvitað sjálf að gæta að því í móttöku flóttamanna, sérstaklega þegar kemur málsmeðhöndlun hælisleitenda, að hún dragist ekki of mikið á langinn,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is.
Hann benti á það á Facebook-síðu sinni um helgina að ef ekki væri fyrir innflytjendur og flóttamenn hefði hagvöxtur líkast til orðið talsvert minni en raun ber vitni á undanförnum árum. Það þýddi minni velmegun og veikara velferðarkerfi.
Kærunefnd útlendingamála synjaði nígerísku hjónunum Sunday Iserien og Joy Lucky um endurupptöku á máli þeirra í lok ágúst og þar með staðfest ákvörðun um að senda þau og átta ára gamla dóttur þeirra Mary úr landi og til Nígeríu.
Í gær var einnig staðfest að afgönsku feðginunum Hanyie og Abrahim Maleki verði vísað úr landi. Kærunefnd útlendingamála hafði tekið fram að þau væru í sérstaklega viðkvæmri stöðu en Abrahim er bæklaður eftir bílslys.
Afgönsku feðginin hafa dvalið hér á landi síðan um jólin en nígeríska fjölskyldan hefur verið hér á landi í eitt og hálft ár.
Þorsteinn segir það ljóst að íslensk stjórnvöld þurfi að einbeita sér að þeim hópi sem kemur hingað, leitar hælis og á rétt á því í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar og augljós mannúðarsjónarmið.
„Þarna er í báðum tilvikum verið að vinna út frá því að réttur viðkomandi einstaklings liggi í öðru Evrópulandi á grundvelli Dyflinnarreglugerðar. Þá finnst mér hins vegar ekkert óeðlilegt að horft sé til mannúðarsjónarmiða ef málsmeðferð hefur dregist mjög á langinn,“ segir Þorsteinn.
Með breytingum á reglugerð um útlendinga, sem tók gildi 30. ágúst, er Útlendingastofnun veitt heimild til að hraða málsmeðferð hælisleitenda eins og unnt er. Breytingin felur meðal annars í sér nánari útfærslu á meðferð forgangsmála hjá Útlendingastofnun. Þau varða umsóknir einstaklinga frá ríkjum sem stofnunin metur sem örugg upprunaríki auk annarra bersýnilega tilhæfulausra umsókna. Þetta kom fram í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu í morgun.
„Ég hef ekki sett mig í smáatriðum inn í stöðu eða rök á bak við ákvörðun í málum þessara tveggja fjölskyldna enda liggur málið ekki á mínu borði. Það er mjög vont þegar málsmeðferð tekur mjög langan tíma, fólk er farið að festa rætur með einhverjum hætti og farið að mynda tengsl við landið. Þá finnst manni ekkert óeðlilegt að það sé ekki síður horft til mannúðarsjónarmiða í málum,“ segir Þorsteinn og bætir við að það verði að forgangsraða.
„Þarna er jafnvægi sem er vandmeðfarið. Það er alltaf einhverjum takmörkunum háð hversu mörgum við getum tekið á móti.“