Reyndu að smygla grjóti á leikinn

Strákarnir fagna öðru marki kvöldsins.
Strákarnir fagna öðru marki kvöldsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók tvo stuðningsmenn úkraínska landsliðsins í knattspyrnu skömmu eftir að landsleikurinn geng Íslandi hófst í kvöld.

Lögreglan hafði vísað þeim frá fyrir leikinn þar sem þeir voru ekki með miða. Skömmu síðar kom í ljós að lás hafði verið tekinn í sundur á hliði sem er ekki notað og talið er að mennirnir hafi komist þannig inn á leikvanginn. Þeir voru færðir í lögreglustöðina á Hverfisgötu.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að grjót hafi einnig verið tekin úr bakpokum annarra úkraínskra stuðningsmanna fyrir utan Laugardalsvöll, auk þess sem eitt eggvopn var tekið úr poka. Jafnframt voru glerflöskur teknar úr bakpokum. Þessir stuðningsmenn fengu ekki að fara á leikinn.

„Það var dálítill handagangur í öskjunni. Úkraínskir stuðningsmenn eru þekktir fyrir að pressa á öryggisgæsluna til að reyna að komast í gegn með svona hluti,“ segir Ásgeir Þór og bætir við að nokkrir flokkar lögreglumanna hafi staðið vörð við aðgangshliðið og leitað á stuðningsmönnunum.

Lögreglan hafði fengið upplýsingar um stuðningsmennina frá öðrum ríkjum þar sem Úkraína hefur spilað og var því vel undirbúin fyrir leikinn.

Eina frávikið, að sögn Ásgeirs Þórs, varð þegar kveikt var á litlu blysi á leiknum sem lokaði í um 20 sekúndur.

Sérsveit ríkislögreglustjóra tók þátt í öryggisgæslunni, auk annarra deilda frá ríkislögreglustjóra. Einnig naut lögreglan aðstoðar frá lögreglunni á Norðurlandi eystra og á Suðurnesjum.

Alls komu á annað hundrað lögreglumenn að aðgerðinni í kringum leikinn, að sögn Ásgeirs Þórs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert