Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast gegn þeirri tillögu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra að vísa því til borgarráðs hvort fram fari opinber rannsókn vegna milljarða tjóns á húsi Orkuveitu Reykjavíkur.
Þetta kom fram á fundi borgarstjórnar sem lauk á níunda tímanum þar sem tillaga flokksins um opinbera rannsókn var tekin fyrir.
„Við leggjumst gegn tillögu borgarstjóra um að tillögu Sjálfstæðisflokksins, um opinbera rannsókn vegna milljarða tjóns á húsi Orkuveitu Reykjavíkur, verði vísað til borgarráðs. Borgarstjórn er ekkert að vanbúnaði að samþykkja slíka tillögu enda liggja fyrir margvíslegar upplýsingar sem kalla á að málið verði rannsakað í heild sinni. Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna kýs hins vegar að tefja slíka rannsókn með því að vísa tillögunni til borgarráðs án haldbærrar ástæðu,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokksins.
Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um opinbera rannsókn vegna milljarða tjóns á húsi Orkuveitu Reykjavíkur:
„Borgarstjórn samþykkir að fram fari opinber rannsókn vegna milljarða tjóns sem orðið hefur á húsi Orkuveitu Reykjavíkur á Bæjarhálsi. Í þeirri rannsókn verði leitast við að leiða í ljós orsakir tjónsins og hvaða lærdóm megi draga af málinu til framtíðar. Athugað verði hvernig staðið var að byggingu hússins á sínum tíma og hvernig staðið hefur verið að viðhaldi þess eftir að það var tekið í notkun. Meðal annars verði kannað hvernig pólitískar ákvarðanir voru teknar um byggingu hússins og stækkun þess á framkvæmdatíma. Þá verði athugað hvernig ákvarðanir voru teknar um einstaka þætti málsins, t.d. hönnun, byggingaraðferðir, efnisval o.s.frv. Fjallað verði um orsakir þess að byggingarkostnaður fór langt fram úr áætlunum. Einnig verði birtur heildarkostnaður við byggingu hússins og allur kostnaður vegna viðhalds og endurbóta frá því það var tekið í notkun. Þá verði könnuð lagaleg staða Orkuveitunnar í málinu og hugsanlegur bótaréttur vegna umrædds tjóns.“