„Okkar eina von er að dómsmálaráðherra og þeir sem stjórna þessum málaflokki grípi inn í,“ segir Sema Erla Serdar stofnandi samtakanna Solaris sem hafa boðað til mótmæla á Austurvelli næsta laugardag kl.15 vegna brottvísunar tveggja flóttafjölskyldna úr landi. Í báðum fjölskyldum eru stúlkur sem eru fæddar á flótta, þær Haniye, 11 ára, og Mary, 8 ára.
Í ágúst voru undirskriftir tæplega 15 þúsund Íslendinga afhentar fulltrúa dómsmálaráðuneytisins, þar sem þess var krafist að mál afganskra feðgina og nígerískrar fjölskyldu sem vísa á úr landi verði endurskoðuð.
Að öllu óbreyttu verður þeim vísað úr landi. „Ekki nema einhver ný gögn koma. Það er alltaf möguleiki,“ segir Sema Erla.
„Fólki er misboðið. Við krefjumst þess að þau fái að dvelja hér. Á hvaða stað erum við komin þegar börn sem þekkja ekkert annað en að vera á flótta fá ekki að vera hér? Sérstaklega þar sem staða þeirra er talin „sérstaklega viðkvæmum“ eins og kemur fram í úrskurði frá stjórnvöldum,“ segir Sema Erla. Hún bendir einnig á að bæði lög um útlendinga og Barnasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna er brotinn með fyrirhugaðri brottvísun stúlknanna og fjölskyldna þeirra.
Hátt í níu hundruð manns hyggjast mæta á mótmælin á Austurvelli samkvæmt tilkynningu um viðburðinn á Facebook, ekki í okkar nafni: stöðvið brottvísun Haniye & Mary!
„Þetta kemur ekki á óvart því Íslendingar vilja að við tökum á móti fleira flóttafólki. Þetta sýnir í raun þessa miklu gjá á milli vilja fólksins í landinu og stjórnvalda sem sýna algjört afskiptaleysi. Það kemur virkilega á óvart,“ segir Sema Erla spurð hvort viðbrögðið og fjöldi þeirra sem hyggjast mæta hafi komið henni á óvart.
Sema Erla segir að þrátt fyrir að staðan sé ekki góð eins og stendur þá „gefumst við ekki upp.“