Lögreglan á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra fylgdust með stuðningsmönnum úkraínska landsliðsins fara úr landi í flugstöð Leifs Eiríkssonar í gærkvöldi. Að sögn varðstjóra í lögreglunni fór allt vel fram.
Samkvæmt frétt Víkurfrétta skiptu lögreglumennirnir tugum í brottfararsal flugstöðvarinnar í gærkvöldi en um miðnætti voru allir lögreglumennirnir farnir úr flugstöðvarbyggingunni.
Sigurbergur Theodórsson, varðstjóri í lögreglunni á Suðurnesjum, segir í samtali við mbl.is að allt hafi farið vel fram og engin hætta á ferðum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók tvo stuðningsmenn úkraínska landsliðsins í knattspyrnu skömmu eftir að landsleikurinn milli Íslands og Úkraínu hófst í gærkvöldi.
Lögreglan hafði vísað þeim frá fyrir leikinn þar sem þeir voru ekki með miða. Skömmu síðar kom í ljós að lás hafði verið tekinn í sundur á hliði sem er ekki notað og talið er að mennirnir hafi komist þannig inn á leikvanginn. Þeir voru færðir í lögreglustöðina á Hverfisgötu.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að grjót hafi einnig verið tekin úr bakpokum annarra úkraínskra stuðningsmanna fyrir utan Laugardalsvöllinn, auk þess sem eitt eggvopn var tekið úr poka. Jafnframt voru glerflöskur teknar úr bakpokum. Þessir stuðningsmenn fengu ekki að fara á leikinn.