Þorgerður Ingólfsdóttir, kórstjóri Kórs Menntaskólans við Hamrahlíð og Hamrahlíðarkórsins, lætur af störfum í haust eftir 50 ára farsælt starf sem kórstjóri við skólann.
Staða kórstjóra hefur verið auglýst á vef stjórnarráðsins þar sem óskað er eftir að nýr kórstjóri geti hafið störf 1. nóvember næstkomandi.
Þorgerður stofnaði kórinn haustið 1967 þegar Menntaskólinn við Hamrahlíð hafði starfað í um það bil eitt ár. Þorgerður er brautskráður söngkennari frá Tónlistarskóla Reykjavíkur og lauk hún einnig námi í tónvísindum og kórstjórn á meistarastigi við University of Illinois í Bandaríkjunum.
Árið 1981 var Hamrahlíðakórinn stofnaður í þeim tilgangi að veita brautskráðum nemendum áframhaldandi tækifæri að syngja undir stjórn Þorgerðar. Þúsundir íslenskra menntaskólanema hafa sungið með kórunum tveimur síðastliðna hálfa öld. Undir forystu Þorgerðar hafa kórarnir tveir haldið fjölda tónleika innanlands og komið fram í 23 löndum heims, meðal annars á mörgum helstu kórhátíðum veraldar í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku.
Þorgerður þykir hafa unnið ómetanlegt frumkvöðulsstarf í tónlist og menningaruppeldi og hefur hún hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir störf sín. Hún var meðal annars útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2012 og hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2013.
Ekki náðist í Þorgerði við vinnslu fréttarinnar.