Merkel klettur í hafsjó vitleysinga

Kýs Þýskaland Merkel í fjórða sinn? Þýski fjölmiðlamaðurinn Ali Aslan …
Kýs Þýskaland Merkel í fjórða sinn? Þýski fjölmiðlamaðurinn Ali Aslan segir Martin Schulz þurfa að vera töframann til að hafa sigurinn af Angelu Merkel. mbl.is/Árni Sæberg

„Martin Schulz formaður þýska Jafnaðarmannaflokksins þarf að vera töframaður til að verða næsti kanslari Þýskalands. Tölurnar eru honum ekki í hag,“ segir þýski fjölmiðlamaðurinn Ali Aslan sem hélt erindi í Norræna húsinu í dag, þar sem varpað var fram þeirri spurningu hvort Þýskaland muni kjósa Angelu Merkel kanslara í fjórða sinn.

Aslan kveðst þó hafa verið of lengi að fylgjast með stjórnmálum til að treysta sér til að segja að eitthvað sé öruggt í þeim efnum, ekki hvað síst þegar horft er til úrslita Bandarísku forsetakosninganna eða Brexit atkvæðagreiðslunnar. „En ef allt fer eins og útlit er fyrir, þá verður hún áfram kanslari.“

Spurningin sé því frekar hverjum Merkel muni stjórna með.

„Schulz vill ekki önnur fjögur ár í samsteypustjórn með Kristilega demókrataflokknum (CDU). Gefi tölurnar hins vegar til kynna að kjósendur séu á öðru máli, þá munu jafnaðarmenn hins vegar væntanlega samþykkja slíka samsteypustjórn, þó treglega verði,“ segir Aslan.

Samkomulag um að ræða ekki innflytjendamálin

Þjóðverjar ganga að kjörkössunum þann 24. september og kjósa sér nýtt Sambandsþing. Í Þýskalandi segir Aslan hins vegar fátt benda til þess að kosningar séu á næsta leiti. „Ef ég hefði verið spurður fyrir ári síðan hvort að þetta yrði ekki spennandi kosningabarátta hefði ég sagt að svo yrði, m.a. vegna innflytjendakrísunnar. Raunveruleikinn er hins vegar sá að hún hefur verið ótrúlega leiðinleg,“ segir hann.

„Á göngu eftir götum þýskra borga á borð við Berlín, þá verður maður varla var við að það fari fram kosningar eftir hálfan mánuð.“

Helmingur af sjónvarpsviðræðum þeirra Merkel og Schulz fór í að …
Helmingur af sjónvarpsviðræðum þeirra Merkel og Schulz fór í að ræða innflytjendamál. Það mál hefur annars lítið sem ekkert borið á góma í kosningabaráttunni. AFP

Aslan segir þetta að hluta til vegna þess að Schulz eigi erfitt með að gagnrýna Merkel eftir langan tíma jafnaðarmanna og kristilegra demókrata í stjórn saman.

Þá hafi innflytjendamálin og sá vandi sem miklum fjölda flóttamanna hefur fylgt, heldur varla komið upp. Það var áberandi að innflytjendamálin tóku yfir helming sjónvarpskappræðna þeirra Merkel og Schulz um helgina, en annars sé málið lítið rætt. „Það vita allir að það þarf að gera eitthvað og að þetta muni reynast þýsku þjóðinni og flóttamönnunum sem þurfa að aðlagast erfitt. Það er hins vegar eins og það sé þegjandi samkomulag um að ræða þetta ekki, til þess að auka ekki styrk AfD.“

Vísar Aslan þar til hægri öfgaflokksins AfD sem hefur komið mönnum á þing víða í þýsku sambandsríkjunum eftir að Merkel opnaði landamæri Þýskalands fyrir flóttamönnum 2015.

Byrjaði sem and-Evrópuhreyfing

„Þetta er áhugaverð hreyfing og það er erfitt að muna að hún byrjaði ekki sem hreyfing útlendingahaturs, heldur sem and-Evrópu hreyfing,“ segir Aslan. Upphaflegir fylgismenn hafi viljað Þýskaland úr ESB, en nú hafi flokkurinn breyst og þá sé baráttuefnið það eitt að losna við flóttamenn.

AfD hefur víða náð góðri stöðu í þýsku sambandsríkjunum og segir Aslan það munu koma á óvart takist flokkinum ekki að koma mönnum á Sambandsþingið líka.

„Innflytjendavandinn verður engu að síður áfram ráðandi eftir 24. september. Það er ekki búið að leysa vandann og stríðið í Sýrlandi er enn í gangi, þó að maður skilji alveg að margir kjósi að horfa framhjá vandanum.“ Aslan bendir þá á að vandinn einskorðist ekki við Sýrland. „Sómalía, Súdan og Líbýa eru önnur dæmi um lönd sem fólk er að reyna að flýja og flestir þeirra munu reyna að komast til Evrópu.“ 

Halda sig við það sem þeir þekkja

Aslan bendir einnig á að Þjóðverjar séu ekki mikið fyrir breytingar og þess vegna fari Merkel væntanlega með sigur af hólmi. „Í Bandaríkjunum þar vinnur maður með loforði um breytingar. Í Þýskalandi taparðu með slíkum loforðum.“

Félagar í hægriöfgaflokkinum AfD mótmæla fyrir utan kosningafund Merkel í …
Félagar í hægriöfgaflokkinum AfD mótmæla fyrir utan kosningafund Merkel í Torgau. AFP

Þjóðverjar haldi sig frekar við það sem þeir þekki. „Við héldum okkur meira að segja við Helmut Kohl sem kanslara í fjögur kjörtímabil,“ bætir hann við og glottir. Vinsældir Merkels séu þó vissulega minni eftir að hún opnaði landamæri Þýskalands fyrir flóttamönnum, því það séu ekki allir sáttir við þá ákvörðun hennar.

„Þegar öllu er hins vegar á botninn hvolft, þá verður líka að horfa til skrýtna kallsins í Hvíta húsinu, Brexit og vanda Frakka. Þjóðverjar sjá að Merkel nýtur virðingar og að hún er sögð valdamesta kona heims og einn valdamesti leiðtogi heims.“ 

Hann segir leiðtogahlutverkið sem alþjóðasamfélagið spyrðir nú reglulega við Þýskaland hins vegar ekki þykja eftirsóknarvert af Þjóðverjum, enda fari lítið fyrir utanríkisstefnu í kosningabaráttunni.

„Sagan er aldrei langt í burtu og hún hefur áhrif og útskýrir tregðu Þjóðverja til að taka við hlutverkinu,“ segir Aslan. Í nýlegri skoðanakönnun hafi til að mynda aðeins 37% aðspurðra svarað því játandi að þeir vildu að Þýskaland væri virkara í þessum efnum.

Svæfir fólk enn í sjónvarpsviðtölum

Aslan segir Merkel þó fjarri því að vera gallalausa og hún sé til að mynda ekki mælskur kandídat. „Eftir þrjú kjörtímabil þá svæfir hún enn fólk í sjónvarpsviðtölum,“ segir Aslan. „En hún er stöðugur klettur innan um hafsjó vitleysinga og þetta kunna Þjóðverjar að meta. Þeir vita að þrátt fyrir ögranir Rússa, Bandaríkjanna og Tyrklands þá mun Merkel halda sinni stefnu.“

Að sínu mati þurfi því eitthvað mikið að gerast til að Merkel verði ekki kanslari næstu fjögur árin.

Angela Merkel Þýskalandskanslari. Aslan segir hana ekki telja sjálfa sig …
Angela Merkel Þýskalandskanslari. Aslan segir hana ekki telja sjálfa sig ómissandi, en að betra sé þó að hún sitji áfram á þessum óvissutímum. AFP

Hann segir Merkel þó ekki ónæma fyrir vilja kjósenda og að hún sé kona sem hafi reynsluna af Helmut Kohl. „Ég held ekki að hún telji sig ómissandi, en ég held að hugarfar hennar sé að á þessum erfiðu tímum, þá sé betra að hún sitji áfram.“

Aslan bendir á að enginn augljós arftaki sé heldur fyrir hendi hjá Kristilega demókrataflokkinum, enda myndist oft tómarúm er sterkur leiðtogi situr þetta lengi við völd.

Ekki sami flokkur og Merkel tók við

Merkel hafi líka breytt flokknum sem sé í raun annar flokkkur en 2005 þegar hún tók við. „Merkel er heldur ekki í takt við flokkinn í mörgum málum. Hún er að mörgu leyti opnari og frjálslyndari,“ segir hann og bendir að kjarni kristilegra demókrata komi úr kaþólsku og íhaldssömu umhverfi Suður-Þýskalands.

Merkel hafi líka gert flokkinn opnari og frjálslyndari. Enda sé hún hugmyndafræðilega mjög sveigjanleg, mögulega vegna sinnar austur-þýsku fortíðar. „Hún hefur ekki þá sannfæringu sem hún er ekki tilbúin að víkja frá og ég tel þennan skort á fastri sannfæringu vinna með henni.

Merkel og Trump gætu ekki verið ólíkari, en þau eiga það sameiginlegt að hafa tekið yfir eigin flokki með vinsældum sínum. Þau ráða af því að þau voru kosinn,“ segir Aslan og bendir á að þó að margir af íhaldssamari flokksfélögum CDU séu ekki sammála Merkel þá muni þeir ekki fórna flokknum með því að slátra mjólkurkúnni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert