Reyndu að æsa lögreglumenn upp

Lögregluþjónar fylgjast með stuðningsmönnum Úkraínu á Laugardalsvelli.
Lögregluþjónar fylgjast með stuðningsmönnum Úkraínu á Laugardalsvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er jafnvel jafndýrt eða dýrara en löggæsla á Menningarnótt,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirs­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, inntur eftir kostnaði við löggæslu í tengslum við leik Íslands og Úkraínu í undankeppni HM í knattspyrnu í gærkvöldi.

Ásgeir kveðst ekki vera með nákvæma tölu yfir kostnaðinn en fjögur lögregluembætti sinntu vinnuskyldu í gær. Verkefnunum lauk þegar lög­regl­an á Suður­nesj­um, höfuðborg­ar­svæðinu og sér­sveit rík­is­lög­reglu­stjóra fylgd­ust með stuðnings­mönn­um úkraínska landsliðsins fara úr landi í flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar í gær­kvöldi.

Lögregluþjónar að störfum.
Lögregluþjónar að störfum. mbl.is/Golli

„Við erum með á annað hundrað lögreglumenn í vinnu, þeir gera ekki neitt annað og vinna allir langan dag,“ segir Ásgeir. Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hand­tók tvo stuðnings­menn úkraínska landsliðsins skömmu eft­ir að lands­leik­ur­inn hófst í gær­kvöldi. Auk þess var grjót og eggvopn tekið úr bakpoka stuðningsmanna fyrir leik.

Ásgeir segir að vegna þess hve vel lögreglan var undirbúin hafi allt farið ágætlega fram. „Ef við hefðum ekki verið með þennan fjölda lögreglumanna fyrir framan þá hefðu þeir sjálfsagt misst einhverja menn inn á völlinn en þeir eru þekktir fyrir að hlaupa inn á völlinn,“ segir Ásgeir en fjöldi lögregluþjóna stóð fyrir framan stuðningsmenn Úkraínu á Laugardalsvelli.

Einhverjum var greinilega heitt þrátt fyrir að hitamælar sýndu 10 …
Einhverjum var greinilega heitt þrátt fyrir að hitamælar sýndu 10 gráður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir eru líka þekktir fyrir, eins og þeir reyndu allan leikinn, að reyna að æsa lögreglumenn upp með því að hrópa að þeim ókvæðisorð. Þeir reyndu að ögra. Þetta er alveg þekkt og bítur ekki á og hefur ekki áhrif á okkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert