Þegar Benedikt Sveinsson útskrifaðist úr læknanámi fyrir 40 árum síðan, þá 26 ára gamall, tók við hjá honum tímabil þar sem hann vann á svokölluðum þrískiptum vöktum þar sem hann svaf ekki þriðju hverja nótt. Rétt fyrir þrítugsafmælið veiktist hann illa af völdum streitu og tók það hann fimm ár að ná sér. Hann lærði þá að hlífa sjálfum sér og passa upp á mörkin, en fyrir rúmum áratug síðan lenti hann í enn fleiri áföllum, veiktist aftur og hefur ekki verið við fulla heilsu síðan.
Málþing um heilsu og forvarnir undir yfirskriftinni Álag á starfsfólk í heilbrigðisþjónustu mun fara fram á Hótel Reykjavík Natura á morgun, fimmtudaginn 7. september. Meðal fyrirlesara verða reyndir sérfræðingar og vísindamenn sem hafa mikla þekkingu á efninu, þar á meðal tveir sérfræðingar í streitu frá Streitustofnunni í Gautaborg og munu þeir kynna nýjustu rannsóknir.
Málþingið er haldið á vegum Streituskóla forvarna, en stofnandi skólans er Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir. Hann hefur unnið mikið með streitutengd heilbrigðisvandamál og vakið athygli á málaflokknum hér á landi.
Ólafur Þór hefur haft marga lækna, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga til meðferðar bæði hérlendis og í Svíþjóð, en hann segir mikinn mun vera á viðhorfum til streitu í löndunum tveimur.
Benedikt segir málþingið mikilvægt, en sjáfur er hann meðlimur í samtökum evrópskra lækna, norrænna lækna og í alþjóðasamtökum lækna um heilsu og líðan lækna og hvernig á að taka á streitu.
„Ég útskrifaðist sem læknir fyrir nákvæmlega 40 árum síðan, þá 26 ára gamall og þá tók við tímabil þar sem ég vann allan daginn og yfirleitt á þrískiptum vöktum þar sem maður svaf ekkert þriðju hverja nótt. Þetta var náttúrulega mjög skemmtilegt, maður var nýútskrifaður en krefjandi á sama tíma. Svo gerðist það nokkrum dögum fyrir þrítugsafmælið mitt að ég fékk einhverja flensu en það var engin undankomuleið og enginn til að leysa mig af svo ég bara vann og vann. Ég var á vakt með með bullandi hita og fárveikur og veiktist mjög illa, ég hálf örmagnaðist. Ég hélt ég myndi ná mér á nokkrum dögum en þetta endaði með því að ég var lagður inn á spítala.“
„Ég varð ekki frískur aftur eins og ég átti vanda til og þá komst ég að því að læknir var ekki talinn heilbrigður nema hann gæti unnið tvo sólarhringa án þess að hvíla sig. Ég gat alveg unnið átta tíma og ég gat unnið 12 tíma, en það stóð í mér að vinna 24 tíma og daginn eftir eins og mér var ætlað að gera. Þetta reyndist mér erfitt fyrsta árið en ég hélt mínu striki og hætti ekkert að vinna. Það sem ég lærði samt af þessu var að ég þyrfti að hlífa mér. Smátt og smátt rjátluðust þessi óþægindi af mér og ég var orðinn frískur á svona fimm árum. En á þessum fimm árum þá tók ég mér ársfrí og hugsaði um strákana mína þar sem ég var orðinn tveggja barna faðir. Svo fór ég út í sérnám og náði mér að fullu og kom heim og vann eins og vitlaus maður eins og læknar gera. Samt passaði ég alltaf upp á mörkin því ég fann þegar streitan var að verða of mikil.“
„Ég var fæðingarlæknir og sá um mæðravernd en stofnunin sem ég hafði helgað mig eftir að ég kom heim úr sérnámi var lögð niður en ég lét það ekki á mig fá og opnaði stofu í Kringlunni og fór að vinna á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði en það átti líka að loka honum. Ég var fenginn ásamt fleiri góðum til þess að halda því skipi á floti. Þegar þetta var komið á góða siglingu og ég hafði líklega aldrei verið í jafn góðu jafnvægi í lífinu þá veiktist konan mín af mjög alvarlegu krabbameini og henni voru ekki gefnar miklar líkur. Hún lifði í 10 ár meira og minna veik og á sama tíma var ég að vinna alveg rosalega bæði á stofunni og á spítalanum í miklu kerfislegu mótlæti því það átti alltaf að loka spítalanum.“
„Ég veit ekki hvað var mest af þessu álagi en ég held að mest orkan hafi farið í að vita aldrei hvort spítalinn yrði opinn bara næsta mánuð, það var alltaf verið að hóta okkur lokun og þrengja að, minnka vaktir og minnka þjónustu þannig að öryggi sjúklinganna var ekki lengur alveg tryggt.“
„Svo gerðist það allt á svipuðum tíma að konan mín dó og enn harðnaði harkan í kerfinu að loka þessari stofnun. Ég lagði mig allan fram við að halda þessu gangandi af því mér fannst þetta flott stofnun en það fór engu að síður svo að þeir lokuðu. Þá fannst mér ég verða fyrir einhverju mesta álagi sem ég hef orðið fyrir. Konan var dáin og búið að loka stofnuninni sem ég hafði helgað mig. Læknar eru líka menn, þeir geta bæði fundið til og grátið. Á einhverjum tímapunkti er ekki hægt að bjóða manni meir. Það var í kringum 2005 eða 6 sem ég fékk einhverja flensu sem fór djöfullega með mig í þessu ástandi og síðan þá hef ég aldrei verið alveg fullhraustur.“
Benedikt er nú í hálfu starfi við Heilsustofnunina í Hveragerði og segist ekki hafa viljað vera án þessarar reynslu og að hún hafi kennt honum meira um það hvernig fólki líður heldur en nokkuð annað. „Í framhaldi af þessu hef ég verið mjög duglegur að halda mér við, stundað endurmenntun og reynt að auðga andann en ég hef líka lagt mig mjög eftir því hvernig staða þessara mála er í heiminum í dag. Það er mikið búið að gera hérna heima, vaktirnar eru ekki lengur eins rosalegar og þetta er ekki eins ómanneskjulegt og þetta var í gamla daga.“
„Þrátt fyrir þetta er ég búinn að vinna sem læknir í 40 ár og verið farsæll og er bara sáttur en hefði náttúrulega heldur vilja sleppa við margt af þessu sem ég hef lent í en þannig er nú bara lífið. Það eiga allir von og það geta allir náð sér á strik en þeir þurfa bara að aðlaga sig.“