Björn Ingi: „Umtalsvert afrek“

Björn Ingi Hrafnsson.
Björn Ingi Hrafnsson. mbl.is/Árni Sæberg

Björn Ingi Hrafnsson, stofnandi Vefpressunnar, segir að viðskiptin með fyrirtækið séu umtalsvert afrek en Sigurður G. Guðjónsson lögmaður bjargaði Vefpressunni frá gjaldþroti með kaupum á félaginu. Björn Ingi telur jafnframt að unnið hafi verið úr stöðunni með glæsibrag.

Ýmsir reynt að tala fjölmiðlana niður

„Það er hlutverk og ábyrgð stjórnenda fyrirtækja að greiða skuldir þeirra og leita allra leiða til þess. Það var hlutverk okkar sem stjórnenda Pressunnar að gæta hagsmuna starfsfólksins og tryggja rekstur þessara fjölmiðla og gæta hagsmuna kröfuhafa. Það höfum við gert og ég hygg að mörgum komi á óvart hversu umfangsmikil viðskipti þetta eru í ljósi þess að ýmsir hafa reynt að tala virði þessara fjölmiðla niður á opinberum vettvangi,“ segir Björn Ingi í samtali við mbl.is.

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður.
Sigurður G. Guðjónsson lögmaður. mbl.is/Kristinn

Gert með „glæsibrag“

Hann segir að fjölmiðlarnir séu verðmætir og gegni mjög miklu hlutverki. Telur hann að viðskiptin „séu í raun umtalsvert afrek“.

„Forsvarsmenn Dalsins höfðu tjáð okkur að þeir myndu ekki setja frekara fjármagn í þessa samstæðu og þeir hafa ekki sett fjármagn, hvorki hlutafé né lánsfjármagn í samstæðuna síðan í vor. Þeir tjáðu okkur að boltinn væri hjá okkur. Það var þess vegna okkar hlutverk að finna leið til þess að vinna sem best úr þessari stöðu, Ég sé satt að segja ekki betur en að við höfum gert það með nokkrum glæsibrag,“ bætir Björn Ingi við.

Setja sig í samband við kröfuhafa

„Það er okkar hlutverk að gæta þess að allir helstu kröfuhafar finni það að við séum að reyna að vinna úr þessu máli og ég veit ekki betur en að við séum búin að setja okkur í sambandi við þá meira og minna alla, eða þá erum í þann veginn að gera það. Það er hefðbundin úrvinnsla í þessu tilfeli en síðan munum við gera nánari grein fyrir þessu í tilkynningu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert